Alvarlegum líkamsárásum fjölgaði á Suðurnesjum
Hátt hlutfall tengist heimilisofbeldi. Kynferðisbrotamál aldrei fleiri.
Alvarlegum líkamsárásum fjölgaði hlutfallslega á milli ára á Suðurnesjum. Heildarfjöldi líkamsárása var þó nánast sá sami og árið áður. Þetta kemur fram í ársskýrslu lögreglunnar á Suðurnesjum. Þá hafi verið áhyggjuefni á undanförnum árum að hlutfall alvarlegri brotanna hafi aukist. Einnig sé áhyggjuefni hversu hátt hlutfall líkamsárásarmála tengist heimilisofbeldi. Skýring á hluta þeirrar aukningar gæti legið í markvissara starfi í þeim málaflokki og betri skráningum en áður.
Þá kemur einnig fram í skýrslunni að ekki hafi gengið sem skyldi að ljúka rannsóknum líkamsárása innan þess tímafrests sem ríkissaksóknari mælir fyrir um vegna álags við rannsóknir kynferðisbrota á árinu, en vonandi horfi það til bóta.
Þá hafa aldrei jafn mörg kynferðisbrotamál komið til rannsóknar í umdæminu og 2013. Samkvæmt ársskýrslunni má rekja það beint til þeirrar hrinu kynferðisbrotamála sem komu til kasta lögreglu á fyrri hluta ársins eftir fjölmiðlaumfjöllun í upphafi árs 2013 um kynferðisbrot gegn börnum, í kjölfar þess að tvær konur sem höfðu orðið fyrir kynferðisbrotum á barnsaldri af völdum sama manns fóru á hans fund með falda myndavél og fengu hann til að gangast við brotunum. Umfjöllunin varð til þess að fjöldi fórnarlamba kynferðisofbeldis steig fram víðs vegar um land og kærði brot, bæði gömul og ný.
Einnig kom til rannsóknar mjög umfangsmikið vændismál þar sem um 70 ætlaðir vændiskaupendur voru yfirheyrðir.