Alvarlegt umferðarslys við Grindavík
Alvarlegt umferðarslys varð á Austurvegi í Grindavík á tólfta tímanum í kvöld. Fjórir voru fluttir á Landsspítala háskólasjúkrahús í Fossvogi í Reykjavík. Tveir þeirra voru alvarlega slasaðir. Lögreglan vinnur enn að vettvangsrannsókn og nánari fréttir af slysinu var ekki að hafa kl. 01 í nótt.Þrjár sjúkrabifreiðar frá Grindavík og Reykjanesbæ voru kallaðar út, auk alls tiltæks lögregluliðs. Þá var slökkviliðið í Grindavík einnig kallað til með búnað. Aðkoma að slysstað var mjög ljót.
Sportbifreið, sem í voru ökumaður og þrír farþegar á leið austur Austurveg fót útaf veginum og valt margar veltur nærri gámasvæði Kölku.
Bifreiðin hafði áður hafnað á ljósastaur við veginn og tók hann með sér tugi metra áður en hún stöðvaðist úti í móanum.Bifreiðin er gjörónýt eftir slysið. Mikið umferðaröngþveiti skapaðist við slysstaðinn í kvöld eftir að sjúkra- og lögreglubílar með sírenur rufu kvöldkyrrðina. Vegurinn var þurr þegar slysið átti sér stað en úrhelli gerði þegar unnið var við skýrslugerð á vettvangi.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson







