Alvarlegt umferðarslys
Alvarlegt umferðarslys varð í Keflavík á föstudagskvöld, þegar mótorhjóli var ekið á mikilli ferð aftan á bifreið. Ökumaður þess slasaðist og var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og þaðan á Landspítala.
Slysið varð með þeim hætti, að ökumaður hjólsins ók á vinstri vegarhelmingi fram úr bifreið og sveigði síðan strax aftur yfir á hægri vegarhelming. Þar var fyrir bifreið, sem ekið var á lítilli ferð og skall hjólið aftan á henni.
Þegar lögreglumenn á Suðurnesjum reyndu að hlúa að mótorhjólamanninum streittist hann mjög á móti, svo setja þurfti hann í handjárn áður en honum var ekið í sjúkrabifreið á HSS. Maðurinn á sér sögu um fíkniefnamisferli og voru meðal annars tekin úr honum blóðsýni á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja með tilliti til fíkniefnaaksturs, segir í tilkynningu frá lögreglu.