Alvarlegt þegar börn mæta ekki í skóla
Þverfaglegt teymi stofnað til að koma á verklagi.
Samþykkt var á bæjarstjórnarfundi Reykjanesbæjar í gær að stofna nefnd, þverfaglegt teymi, til að koma á verklagi vegna skólaforðunar barna. Í teyminu sitja María Gunnarsdóttir, forstöðumaður og Þórdís Elín Kristinsdóttir félagsráðgjafi fyrir hönd barnaverndarnefndar, Gyða Arnmundsdóttir fyrir hönd Fræðsluskrifstofu og Ásgerður Þorgeirsdóttir fyrir hönd skólastjórnenda.
Á fundi barnaverndarnefndar nýverið var nefndinni kynnt nýtt verklag sem starfsmenn barnaverndarnefndar eru að vinna með Fræðsluskrifstofu og stjórnendum grunnskóla í Reykjanesbæ vegna skólaforðunar barna.
Markmiðið með teyminu er að bregðast við þegar börn mæta ekki í skóla, efla samstarf milli stuðningskerfa og tryggja að sambærileg mál fái sambærilega meðferð.
Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar telur alvarlegt þegar börn mæta ekki í skóla og því er mikilvægt að samstaða sé á milli stuðningskerfa svo sem barnaverndar, skóla og Fræðsluskrifstofu til að bregðast á skjótan hátt við vandanum.