Alvarlegt slys í sjónum við affall Reykjanesvirkjunar
Allar björgunarsveitir á Suðurnesjum voru kallaðar út í morgun þegar tilkynnt var um alvarlegt slys við affall Reykjanesvirkjunar. Fjórir einstaklingar voru við affallið þegar einn þeirra hrasaði og sogaðist út með öldunni.
Haraldur Haraldsson, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes, sagði í samtali við Víkurfréttir að atburðarásin hafi verið óljós þegar björgunarsveitir voru kallaðar út. Tilkynnt var um mann í sjónum sem ræki frá landi. Mannskapur frá björgunarsveitum var sendur á vettvang í fjöruna við affallið og einnig á bátum til leitar.
Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar hafi svo fundið manninn í sjónum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um ástand mannsins.
Haraldur sagði að frá Björgunarsveitinni Suðurnes hafi m.a. kafarasveit verið send á vettvang en aðstæður við affallið hafi verið erfiðar og þungur sjór. Þar sé t.a.m. glapræði að ætla að stunda sjósund þar sem straumar eru þungir. Þá er svæðið lokað og innan athafnasvæðis virkjunarinnar.