Alþjóðlegar þjálfarabúðir Keilis með heimsþekktum leiðbeinendum
Heilsu- og uppeldisskóli Keilis stendur í annað sinn fyrir alþjóðlegum heimsklassa þjálfarabúðum dagana 24.-26. febrúar nk. Þjálfarbúðirnar eru haldnar í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Í fyrstu þjálfarbúðirnar í sept. sl. komu um 120 íþrótta-, styrktar- og sjúkraþjálfarar og margir þeirra hafa þegar skráð sig á þær næstu. Okkur á Víkurfréttum lék forvitni á að vita hver væri tilgangurinn með þessum þjálfarabúðum og ræddum við Gunnhildi Vilbergsdóttur, forstöðumann Heilsuskóla Keilis, sem stendur fyrir þjálfarabúðunum á Ásbrú.
„Eitt af markmiðum okkar hjá Keili er að halda reglulega endurmenntunarnámskeið fyrir fagfólk í íþrótta–, styrktar- og sjúkraþjálfun. Þjálfarabúðirnar er stærsti viðburður okkar og þátttakan í september sl. var framar vonum okkar“, segir Gunnhildur.
Allt það nýjasta í styrktar- og ástandsþjálfun
Þjálfarabúðirnar eru 3ja daga fyrirlestrar og verklegar æfingar í öllu því nýjasta í styrktar- og ástandsþjálfun, bæði íþróttamanna og almennra heilsuræktariðkenda. Meginútgangspunktur þjálfarabúðanna er að lágmarka meiðsl íþróttamanna og iðkenda og hámarka árangur þeirra. Efni þessara þjálfarabúða verða forvarnir til að forðast meiðsl og þjálfun meðan á endurhæfingu stendur, einnig þjálfun djúpvöðva, „dýnamísk“ upphitun, hraða- og kraftþjálfun. Fjölbreytt og mikilvæg efnisatriði, þar sem lögð er áhersla á verklegar æfingar í tengslum við fyrirlestra.
Leiðbeinendurnir þrír koma allir frá Bandaríkjunum og eru allir þekktir á sviði þjálfunar. Einn þeirra, David Jack er góðvinur Helga Jónasar Guðfinnssonar, körfubolta- og styrktarþjálfara og þannig byrjaði þetta allt saman. David kom í september sl. og heillaðist algjörlega af landi og þjóð. Nú kemur hann með aðra tvo starfsbræður sína, þá Eric Cressey og Nick Tumminello. Þeir taka konurnar með sér til að fara í smá frí.
Mikil vakning hjá íþróttaþjálfurum
Síðast komu yfir 120 manns í þjálfarabúðir Keilis; sjúkraþjálfarar, einkaþjálfarar, íþróttaþjálfarar og íþróttakennarar, allt mjög metnaðarfullir þjálfarar. Suðurnesjamenn voru áberandi, margir einkaþjálfarar úr Lífsstíl komu og allir sjúkraþjálfararnir frá Sjúkraþjálfun Suðurnesja. Einnig voru þarna íþróttaþjálfarar hvaðanæva af landinu, m.a. úr knattspyrnu, handbolta, fimleikum, körfu og frjálsum íþróttum sem allir eiga það sameiginlegt að þurfa sterka og snarpa íþróttamenn í góðu vöðvajafnvægi, með liðleika og gott úthald í vöðvum sem geta hoppað, hlaupið, sprettað og bremsað og þar fram eftir götunum. Við finnum fyrir mikilli vakningu hjá íþróttaþjálfurum fyrir námskeiðum okkar er lúta að styrktar- og ástandsþjálfun og sjáum að heilu þjálfarateymin komi saman, þ.e. íþróttaþjálfara, sjúkraþjálfara og styrktarþjálfa, enda mikilvægt að þessir aðilar vinni náið saman og hafi grunnskilning á verkefnum hvers annars þar sem þeir vinna með sömu einstaklingana í liðinu.
Alþjóðlegar þjálfarabúðir
Íslenskir þjálfarar hafa hingað til þurft að sækja námskeið sem þessi erlendis en nú nægir að fara í gömlu bandarísku herstöðina! Aðstaðan á Ásbrú er eins og best verður á kosið fyrir þjálfarabúðir sem þessar. Í göngufæri höfum við glæsilegan fyrirlestrasal í Andrews leikhúsinu, verklega kennsluaðstöðu í íþróttahúsinu og matsal í Keili menntasetrinu. Gæti ekki verið betra.
Töluvert framboð er af íþrótta- og fitness (Summit) námskeiðum sem þessum í Bandaríkjunum, en við höfum ekki orðið vör við þau í Evrópu. Við ætlum því að setja töluvert púður núna í að kynna þjálfarabúðirnar í Evrópu og finnum þegar fyrir nokkrum áhuga meðal þjálfara þaðan, enda heimsklassa leiðbeinendur sem kenna hjá okkur. Þeir metnaðarfullu þjálfarar sem hafa sýnt þessu áhuga eiga það allir sameiginlegt að vera mjög uppteknir, en sjá hér tækifæri til að endurmennta sig og endurhlaða sál og líkama í sömu ferð. Ísland er hreint og fallegt land. Við bjóðum upp á hreint loft, hreinan mat og hreint vatn. Einnig heillast allir af Bláa lóninu og sjá fyrir sér afslöppun þar eftir annasama námskeiðsdaga.
Komið til að vera
Miðað við aðsóknina í síðustu þjálfarabúðir og áhuga núna, þá stefnir Heilsuskóli Keilis að því að vera með tvennar slíkar þjálfarabúðir árlega og reyna að fjölga erlendum þátttakendum. Kreppan bítur okkur ekki þar sem fæstir þátttakendur greiða úr eigin vasa. Stéttarfélög styrkja endurmenntun félagsmanna sinna og íþróttafélög styrkja sína þjálfara til námskeiða sem þessa. Öll metnaðarfull íþróttafélög vilja stuðla að því að lágmarka meiðsli íþróttamanna sinna og hámarka árangur þeirra.
Keilir mun í framtíðinni vinna markvisst að því að halda alþjóðleg námskeið og ráðstefnur á Ásbrú og stuðla þannig að eflingu „ráðstefnutengdrar ferðaþjónustu“ á Suðurnesjum. Flugráðstefna Keilis í september sl. er gott dæmi um slík verkefni. Yfir 300 þátttakendur sóttu þá ráðstefnu, þar af yfir 200 erlendir þátttakendur og 10 frétta- og sjónvarpsmenn.