Alþjóðlegar björgunarsveitir funduðu á Ásbrú
Nú stendur yfir INSARAG fundur (International Search and Rescue Advisory Group, sem starfar undir hatti Sameinuðu þjóðanna) í Officeraklúbbnum á Ásbrú í Reykjanesbæ. Fundinn sækja um 80 stjórnendur alþjóðarústabjörgunarsveita frá öllum heimshornum. Slysavarnafélagið Landsbjörg og utanríkisráðuneytið standa að fundinum fyrir Íslands hönd.
Helsta umræðuefni fundarins eru úttektir á alþjóðlegum rústabjörgunarsveitum og kröfur sem gera á til þeirra. Nokkuð hefur borið á svokölluðum „disaster tourism“ í alþjóðlegum aðgerðum á hamfarasvæðum en það er þegar björgunarlið, sem ekki er í standi til að takast á við fyrirliggjandi verkefni, mætir á staðinn. Sem dæmi má nefna jarðskjálftann í Íran í desember 2003 þegar 1200 björgunarmenn komu á staðinn fyrsta sólarhringinn eftir skjálftann, misvel búnir og sköpuðu meiri og stærri vandamál en þeir leystu.
Því er nú leitast við að staðla vinnulag og meta getu alþjóðlegra björgunarsveita sem sendar eru af stað þegar stórir jarðskjálftar ríða yfir. Þess má geta að Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin mun fara í úttekt í september en hún verður meðal fyrstu sveita í heiminum sem það gera.
Þátttakendur heimsóttu höfuðstöðvar Björgunarsveitarinnar Suðurnes í gær og kynntu sér starfsemi og búnað sveitarinnar.