Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Alþjóðleg torfærukeppni í Stapafelli í sumar
Þriðjudagur 27. apríl 2004 kl. 10:21

Alþjóðleg torfærukeppni í Stapafelli í sumar

Alþjóðleg torfærukeppni verður haldin í Stapafelli laugardaginn 17. júlí í sumar. Fjörtíu og fjórir íslenskir og erlendir þátttakendur hafa skráð sig til keppni.

Suðurnesjamaðurinn Gunnar Gunnarsson margfaldur Íslandsmeistari í torfæru segist búast við hörkukeppni, enda verði þetta ein stærsta keppni sinnar tegundar í heiminum. „Við erum reyndar að fara út til Noregs í maí þar sem við tökum þátt í svipaðri keppni. Þar verða þátttakendur um 46 talsins og þarf af 8 Íslendingar,“ segir Gunnar en keppnin er haldin í bænum Vormsund rétt utan við Osló.
Í keppnina hafa skráð sig aðilar frá Noregi, Íslandi, Svíþjóð, Danmörku og einn keppandi frá Þýskalandi og einn frá Ísrael.
Gunnar segir að Íslendingar standi mjög framarlega í torfæruakstri í heiminum í dag.
„Við fórum út til Noregs síðasta sumar og fylgdumst með keppni. Þar sáum við að bílarnir eiga nokkuð langt í land miðað við okkar bíla. Það er landsliðið í torfæru sem er að fara þarna út og við verðum eitt af fáum landsliðum sem komum með gullið heim,“ sagði Gunnar í samtali við Víkurfréttir.

Myndin: Gunnar við kerru sem hann hefur nýlega fest kaup á undir torfærubíl sinn Trúðinn. Kerran er keypt frá Bandaríkjunum og segir Gunnar hana vera bílskúr á hjólum. Kerran verður flutt með Norrænu til Noregs, en helsti styrktaraðili íslensku keppendanna er Smyril Line. Eins og sést á myndinni er kerran engin smásmíði. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024