Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Alþjóðleg ráðstefna á Ásbrú um vendinám
Þriðjudagur 6. janúar 2015 kl. 08:42

Alþjóðleg ráðstefna á Ásbrú um vendinám

– forsprakkar vendinámsins í Bandaríkjunum sérstakir gestir

Alþjóðleg ráðstefna og vinnubúðir um vendinám verða haldnar á Ásbrú í Reykjanesbæ 14. apríl 2015. Ráðstefnan er liður í verkefninu „FLIP - Flipped Learning in Praxis“ sem fékk nýverið styrk úr Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins, sem hefur það markmið að búa til handbækur fyrir kennara sem hafa hug á að innleiða vendinám í kennslu og skólastarfi.
 
Sérstakir gestir ráðstefnunnar verða Jonathan Bergmann og Aaron Sams, forsprakkar vendinámsins í Bandaríkjunum og höfundar bókarinnar „Flip Your Classroom: Reach Every Student in Every Class Every Day“. Í kjölfar ráðstefnunnar gefst þátttakendum kostur á að sækja vinnubúðir þar sem þeir geta prófað sig áfram í tæknimálum og kennsluháttum, ásamt því hvernig þeir eiga að undirbúa námsefni og kennslustundir í vendinámi. Markmiðið er að gefa þátttakendum innsýn í hvernig hægt er að innleiða vendinám á mismunandi skólastigum, hvort heldur sem er í stökum áföngum eða í öllu skólastarfinu.
 
Ráðstefnan og vinnubúðirnar nýtast öllum þeim sem hafa áhuga á vendinámi. Ráðstefnan fer fram í Keili á Ásbrú 14. apríl og er þátttökugjald kr. 5.000. Nánari upplýsingar og dagskrá verður birt síðar, segir í frétt á vef Keilis.
 
Vinnubúðir með Jonathan Bergmann og Aaron Sams
 
Þann 15. apríl býðst skólastjórnendum og öðrum áhugasömum að sækja sérstakar vinnubúðir með Jonathan og Aaron, þar sem tækifæri gefst til að vinna náið með þeim um innleiðingarferli, mikilvæg atriði varðandi vendinám og þeirra hugmyndir. Þátttökugjald verður kr. 40.000 og takmarkaður fjöldi þátttakenda.
 
Nánari upplýsingar verður hægt að nálgast á heimasíðu Keilis. Einnig má skrá sig á póstlista á netfangið [email protected].

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024