Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Alþjóðabjörgunarsveitin fær húsnæði á Keflavíkurflugvelli
Mánudagur 16. mars 2009 kl. 09:31

Alþjóðabjörgunarsveitin fær húsnæði á Keflavíkurflugvelli

- og Verne hefur Landsbjörg og Gagnavörslunni hillueiningar


Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar (KADECO) og Varnarmálastofnun Íslands afhentu fyrir helgi Alþjóðabjörgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar húsnæði til afnota á flugöryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Í húsnæðinu er geymdur grunnbúnaður sveitarinnar. Staðsetningin á Keflavíkurflugvelli er mikilvæg en það að hafa grunnbúnað sveitarinnar við flugvöllinn styttir viðbragð sveitarinnar.

Þær einingar sem standa að sveitinni í dag eru Björgunarsveitin Ársæll, Hjálparsveit skáta Kópavogi, Björgunarsveit Hafnarfjarðar og Björgunarsveitin Suðurnes. Einnig koma að henni slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Landspítalinn. Í sveitinni eru björgunarmenn sem hafa sérhæft sig í rústabjörgun, læknir, bráðatæknar, sérfræðingar í eiturefnum, fyrstuhjálpar- og fjarskiptamenn. Búnaður sveitarinnar vegur um fimm tonn en það fer eftir þeim verkefnum sem sveitin er að fara í hverju sinni. Gert er ráð fyrir að sveitin geti starfað án utankomandi aðstoðar í 10-14 daga.

Slysavarnafélagið Landsbjörg fékk einnig við sama tækifæri fyrir helgi afhentar hillueiningar úr vöruhúsi NEX (Navy Exchange) á Keflavíkurflugvelli. Það er fyrirtækið Verne sem afhenti félaginu hillurnar. Hillurnar verða settar upp í geymsluhúsnæði Landsbjargar á Keflavíkurflugvelli þar sem geymdir eru gamlir munir úr sögu samtakanna.

Sprotafyrirtækið Gagnavarslan á Keflavíkurflugvelli fékk einnig afhentar hillur frá Verne. Gagnavarslan hefur vaxið hratt en þar vinna nú um tveir tugir starfsmanna á Vallarheiði.

Íslenskir aðalverktakar eru nú að hefja breytingar á fyrrum vöruhúsum Navi Exchange en þar verður gagnaver Verne til húsa.

Efri myndin:
Pálmar Guðmundsson frá Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, Gunnar Stefánsson frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu og Ellisif Tinna Víðisdóttir frá Varnarmálastofnun Íslands við afhenfingu á húsnæðinu fyrir Alþjóðabjörgunarsveitina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Fulltrúar Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Íslenskra Aðalverktaka, Varnarmálastofnunar Íslands, Verna, Gagnavörslunnar og Slysavarnafélagsins Landsbjargar við afhendinguna á Vallarheiði fyrir helgi. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson