Alþingi samþykkti lög um gagnaver
Alþingi samþykkti í gær frumvarp um heimild til handa iðnaðarráðherra til að semja við Verne Holdings ehf. og fleiri um byggingu og rekstur gagnavers í Reykjanesbæ.
36 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu, fimm greiddu atkvæði gegn því og sjö greiddu ekki atkvæði. Fimmtán voru fjarverandi.
Miðað er við að samningurinn gildi í að minnsta kosti 10 ár en hann kveður á um þær skuldbindingar af hálfu ríkisins, eigendanna og félaganna sem kunna að þykja nauðsynlegar og viðeigandi.
Málið hefur verið nokkuð umdeilt ekki síst vegna aðkomu aðkomu Björgólfs Thors Björgólfssonar að verkefninu í gegnum 21,8% hlut Novators í Verne.
Morgunblaðið greinir frá því að Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, hafi rætt við starfsmenn Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í Brussel í gær. Haft er eftir henni að hún sé bjartsýn á að stofnunin samþykkti ívilnanirnar sem veita á fyrirtækinu.