Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Almannavarnir: Svona er staðan núna
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
þriðjudaginn 28. janúar 2020 kl. 01:04

Almannavarnir: Svona er staðan núna

Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra hefur sent frá sér stöðuskýrslu vegna óvissustigs vegna landriss á Reykjanesskaga. Í skýrslunni er farið ítarlega yfir stöðu mála eins og hún var um miðjan dag í gær, mánudaginn 27. janúar.

Landris hefur mælst frá 21. janúar og virðist miðja þess vera á Reykjanesskaganum vestan við fjallið Þorbjörn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Landrisið er óvenju hratt eða um 3-4 mm á dag og í heildina er það orðið um 2 cm þar sem það er mest og kemur fram bæði á síritandi GPS mælum og í bylgjuvíxlmælingum úr gervitunglum. Landrisið er líklegast vísbending um kvikusöfnun á nokkurra km dýpi. Ef skýringin er kvikusöfnun er hún enn sem komið er mjög lítil en gróft mat er að rúmmálið sé af stærðargráðunni 1 milljón rúmmetrar (0,001 km3). Nákvæmar mælingar á jarðskorpuhreyfingum á Reykjanesskaganum ná yfir tæplega 3 áratugi. Á því tímabili hefur sambærilegur landrishraði ekki mælst. Atburðarásin er því óvenjuleg fyrir svæðið ef miðað er við reynslu undarfarinna áratuga.

Landrisið mælist samfara jarðskjálftahrinu austan við rismiðjuna (norðaustan við Grindavík) sem mælst hefur frá 21. janúar. Stærstu skjálftarnir mældust 22. janúar og voru 3.7 og 3.6 að stærð og fundust vel á Reykjanesskaganum og allt norður í Borgarnes. Dregið hefur úr hrinunni síðustu daga. Jarðskjálftahrinur eru algengar á svæðinu og þessi hrina getur ekki talist óvenjuleg ein og sér.

Bakgrunnsupplýsingar:

Landrisið mælist á flekaskilum og innan eldstöðvakerfis Svartsengis sem er ýmist talið sjálfstætt eldstöðvakerfi eða talið vera hluti stærra kerfis sem kennt er við Reykjanes. Síðast gaus í kerfinu í Reykjaneseldum sem stóðu yfir með hléum á tímabilinu 1210-1240 en á því tímabili gaus nokkrum sinnum þar af urðu þrjú eldgos í Svartsengiskerfinu. Eldgosin voru hraungos á 1-10 km löngum gossprungum en engin sprengigos eru þekkt í Svartsengiskerfinu. Stærsta gos í hrinunni á 13. öld myndaði Arnarseturshraun (um 0,3 km3 og 20 km2). Algengast er að gos af þessari gerð standi yfir í nokkra daga, uppí nokkrar vikur.

Jarðskjálftavirkni er mjög algeng á svæðinu og tengist flekahreyfingum, jarðhitavirkni og hugsanlega innskotavirkni. Stærstu skjálftar sem mælst hafa á vesturhluta Reykjanesskagans eru um 5,5 að stærð.

Samantekt

• Veðurstofan/Jarðvísindastofnun HÍ - Sólarhringsvakt og greining gagna
• Vegakerfi/samgöngur – Undirbúningur undir lokanir vega ef til rýminga kemur
• Rýmingar – Áætlanir yfirfarnar
• Lögreglan – Samhæfir aðgerðir
• Heilbrigðisþjónustan - Greiningarvinna
• Björgunarsveitir – Rýmingaráætlanir undirbúnar
• Neyðarlínan – Tilbúin að senda sms á alla á svæðinu ef til goss kemur
• Rauði krossinn – Undirbúningur fyrir fjöldahjálparstöðvar á skráningar
• Flugsamgöngur – Litakóði fyrir flug hefur verið færður á gult
• Landhelgisgæslan – Fylgjast með stöðu mála.
• Stjórnsýslan – Upplýsingagjöf
• Hagsmunaaðilar - Samræma viðbragðsáætlanir við viðbragðsáætlanir almannavarna.
• Veitukerfi – Búið er að kortleggja stöðuna

Staða mála

Veðurstofan / Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands

Náttúruvársvið Veðurstofu Íslands er með sólarhringsvakt á svæðinu og vinnur í því að fjölga mælum og auka rauntímagögn.

Haldinn var fundur í Vísindaráði almannavarna kl 13 í dag. Nýjustu gögn vísindamanna benda til þess að þenslan haldi áfram á sama jafna hraða og landrist nálgast 3 cm þar sem mest er. Atburðirnir bendi sterklega til kvikusöfnunar á 3-5 kílómetra dýpi, sem telst grunnt.

Mögulegar sviðsmyndir

Atburðarrásin hefur aðeins staðið yfir í nokkra daga og óvíst hvort að hún leiði til frekari atburða sem hafi áhrif. Út frá þeim upplýsingum sem þegar liggja fyrir eru eftirfarandi sviðsmyndir mögulegar án þess að hægt sé að segja til um hver þeirra er líklegust eða hversu hratt atburðarásin mun þróast.

Ef landris stafar af kvikusöfnun:

• Kvikusöfnun hættir mjög fljótlega án frekari atburða.
• Kvikusöfnun heldur áfram á sama stað og hraða í einhvern tíma án þess að til stærri atburða komi
• Kvikusöfnun heldur áfram og leiðir til gangainnskots
• Kvikusöfnun heldur áfram og leiðir til gangainnskots og eldgoss (hraungoss á sprungu).
• Kvikusöfnun veldur jarðskjálftavirkni með stærri skjálftum á þessu svæði (allt að M6)

Ef landris stafar ekki af kvikusöfnun:

• Landrisið gæti valdið eða tengst frekari skjálftavirkni og þar með hugsanlega stærri skjálftum á þessu svæði (allt að M6).

Vegakerfi/samgöngur

Óskað hefur verið eftir aukinni þjónustu Vegagerðarinnar á Suðurstandavegi 427, Nesvegi 425 og Krísuvíkurleið 42 á meðan óvissustig varir til að tryggja öruggar flóttaleiðir.

Rýmingar

Búið er að yfirfara rýmingaráætlanir í samræmi við mögulega sviðsmyndir. Kórinn í Kópavogi og Reykjaneshöll í Reykjanesbæ eru næstu fjöldahjálparstöðvar. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum og björgunarsveitir halda utan um áætlanagerð vegna rýmingar.

Lögreglan

Stjórnun aðgerða er í höndum lögreglu í héraði. Samhæfing aðgerða er í höndum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Heilbrigðisþjónustan

Heilbrigðisáhöfn samhæfingastöðvarinnar hefur unnið að kortlagningu viðkvæmra þjóðfélagshópa og rekstrarsamfellu í heilbrigðisþjónustu í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Unnið er að áætlunum um rýmingu og úrræði fyrir vistfólk á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð.

Einnig hefur verið borið kennsl á skjólstæðinga heimahjúkrunar sem sérstaklega viðkvæmur hópur og unnið er að áætlun um samfellu í þeirri þjónustu sem þar er veitt.

Grindavíkurbær

Bæjarstjórn Grindavíkur og mikilvægar stofnanir sveitarfélagsins hafa verið upplýstar um stöðu mála og hafa tekið þátt í áætlanarvinnu. Ennig hefur verið boðað til íbúafundar í dag kl. 16 mánudaginn 27. Janúar í Íþróttamiðstöðinni í Grindavík.

Björgunarsveitir

Lögregla og björgunarsveitir hafa unnið rýmingaráætlun fyrir Grindavík og nærliggjandi svæði, þar sem verkefnum hefur verið forgangsraðað. Sérstök áhersla er á aðstoð við viðkæma einstaklina (e. vulnerable).

Neyðarlínan

Neyðarlínan sér um boðanir til þeirra sem eru á svæðinu komi til rýminga, ásamt öðrum boðunum. Farið hefur verið stöðuna á fjarskiptakerfinu á svæðinu og gengið úr skugga um að staðan á því sé eins og best verður á kosið.

Rauði krossinn

Búið að yfirfara búnað og gera klárt ef til rýminga kemur.
Búið er að útbúa tengil þar sem skráning í fjöldahjálparstöðvum getur farið fram.


Flugsamgöngur

Litakóði fyrir flug hefur verið færður á gult og upplýst flugrekendur um stöðuna. Isavia er í góðu sambandi við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Veðurstofu Íslands, og fá upplýsingar um stöðu mála.
Það að færa litakóða fyrir flug á gult hefur engin áhrif á flugfarþega og veldur ekki röskunum á flugi. Þar er heldur ekki um að ræða að gripið sé til sérstakra aðgerða eða ráðstafana. Þetta þýðir aukið eftirlit með eldstöð og aukna upplýsingagjöf milli viðbragðsaðila og Isavia og síðan frá Isavia til flugrekenda og þjónustuaðila.

Landhelgisgæslan

Fulltrúar Landhelgisgæslunnar hafa sótt fundi vegna málsins ásamt öðrum viðbragðsaðilum. Landhelgisgæslan hefur upplýst um stöðu eininga stofnunarinnar sem verða til taks ef á þarf að halda.

Stjórnsýsla

Upplýsingafulltrúar atvinnuvega-, forsætis-, umhverfis- og utanríkisráðuneyta hafa komið að upplýsingagjöf til almennings í fjölmiðlateymi almannavarna ásamt upplýsingafulltrúum Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Rauða krossins.
Dómsmálaráðherra var upplýst á fundi í Skógarhlíð á sunnudag og fylgist með framvindunni.

Hagsmunaaðilar

Unnið hefur verið að því að samræma viðbragðsáætlanir almannavarna við áætlanir hagsmunaaðila á svæðinu.
HS Orka og Bláa Lónið hafa tekið virkan þátt í vinnslu viðbragðsáætlunar.

Veitukerfi

Grindavík treystir alfarið á rafmagn frá Svartsengi en önnur sveitarfélög fá rafmagn frá línu sem liggur samhliða Reykjanesbraut.
Öll sveitarfélög á Suðurnesjum að undanskildum Vogum fá allt sitt neysluvatn frá Svartsengi.
Öll sveitarfélög á Suðurnesjum fá heitt vatn frá Svartsengi.