Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Almannavarnir greiða umfram orkunotkun vegna aðgerða í Grindavík
Föstudagur 12. apríl 2024 kl. 18:15

Almannavarnir greiða umfram orkunotkun vegna aðgerða í Grindavík

til að varna frostskemmdum

Almannavarnir hafa ákveðið að koma til móts við fasteignaeigendur í Grindavík sem hafa fengið hærri rafmagns- og hitaveitu reikninga á meðan aðgerðir til að verja hús fyrir frostskemmdum í kjölfar náttúruhamfaranna við Grindavík stóðu yfir. Um er að ræða umframkostnað heimila og fyrirtækja á tímabilinu 19. janúar til 31. mars 2024. Heildarkostnaður vegna þessa nemur rúmlega tuttugu milljónum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þann 14. janúar hófst eldgos við Grindavík sem skemmdi stofnæð hitaveitu, Grindavíkuræð, sem liggur frá Svartsengi til Grindavíkur með þeim afleiðingum að lítill þrýstingur var á dreifikerfi hitaveitunnar í bænum og að hluta til alveg heitavatnslaust. Á sama tíma stóðu yfir tímabil rýminga og brottflutninga sem skerti möguleika húseigenda til að sinna fasteignum sínum sem skyldi. Þar sem langur frostakafli var á þessum tíma ákváðu Almannavarnir þann 19. janúar að ráðast í aðgerðir til að koma hita á fasteignir til að verja þær frostskemmdum. Við það jókst heitavatns- og rafmagnsnotkun í hluta bæjarins með tilheyrandi auka kostnaði fyrir húseigendur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Almannavarnir munu greiða HS Veitum þá upphæð sem um ræðir, og hafa HS Veitur tekið að sér að endurgreiða þeim notendum sem urðu fyrir þessum auka kostnaði. Það verður gert við útsendingu orkureikninga vegna mars, sem sendir verða út bráðlega. Við útreikningana verður horft til rafmagns- og heitavatnsnotkunar eins og hún var 1. til 14. janúar, þ.e. fyrir náttúruhamfarirnar í janúar og notkun umfram það á tímabilinu 19. janúar til 31. mars reiknuð sem umframnotkun og kemur til lækkunar orkureikninga vegna mars.

Hitaveitan í bænum er komin í góða virkni, með einhverjum undantekningum. Á næstunni munu Almannavarnir skila ábyrgð og umsjón á húshitun til eigenda fasteigna i Grindavík. Það verður vel kynnt íbúum Grindavíkur.