Allur kostnaður við samræmda móttöku flóttafólks er greiddur af íslenska ríkinu
„Ekki er um að ræða 350 nýja flóttamenn, heldur stuðning við allt að 350 einstaklinga og fjölskyldur sem á hverjum tíma eru hér búsettir, hafa fengið vernd og eru með lögheimili í Reykjanesbæ,“ segir í tilkynningu frá Reykjanesbæ en í vikunni skrifuðu Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra, undir nýjan samning um samræmda móttöku flóttafólks eins og flest stærri sveitarfélög landsins hafa þegar gert eða ætla að gera.
„Með samræmdu móttökunni er verið að veita þeim sérstakan stuðning svo þau nái betur að fóta sig í íslensku samfélagi eða aðstoða þá við að flytja sig um set hér innanlands óski þeir þess. Samningurinn felur í sér að allur kostnaður við samræmda móttöku er greiddur af íslenska ríkinu,“ segir jafnframt í tilkynningu bæjarins.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra var í för með félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem og starfsfólk beggja ráðuneyta.