Allt í plati!
Brunavarnir Suðurnesja og Thermo Plus, héldu brunavarnaæfingu fyrir starfsfólk fyrirtækisins sl. fimmtudag. Starfsfólk fékk sýnikennslu í notkun slökkvitækja og eldvarnateppis, og hvernig eigi að bregðast við ef eldur kemur upp í húsnæðinu. Starfsmenn voru ánægðir með æfinguna og Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, sagði brýnt að sem flest fyrirtæki veittu starfsfólki sínu slíka þjálfun.Brunavarnir Suðurnesja og Thermo Plus hafa unnið vel saman að uppbyggingu öryggismála Thermo Plus síðastliðið ár, að sögn Sigmundar. „Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa verið mjög áhugasamir um að uppfylla öryggiskröfur og þessi liður var prófun á kerfinu. Þá voru aðgerðir slökkviliðs og starfsfólks samtvinnaðar“, sagði Sigmundur. Æfingin hófst með yfirferð um húsnæðið, þar sem farið var yfir brunahólfun hússins, rýmingarleiðir, helstu hættur sem starfseminni fylgja, staðsetningu á slökkvitækjum, notkun og viðbrögð við boðun frá brunaviðvörunarkerfi hússins. Eftir hádegi var eitt brunahólfið reykfyllt með gervireyk, brunaviðvörunarkerfið fór að sjálfsögðu í gang, slökkviliðið fór á staðinn og starfsmenn rýmdu húsnæðið, eins og um raunverulegan bruna væri að ræða. Einn starfsmaður var eftir inni í reykfyllta rýminu og gekk reykköfurum vel að finna hann og bjarga honum út. Í lok æfingarinnar voru tímasetningar skoðaðar og farið yfir það sem betur mátti fara.Að sögn Sigmundar er fyrirhugað að gera æfinguna að árlegum viðburði. „Ég tel mjög brýnt að starfsmenn fái sýnikennslu og læri fyrstu viðbrögð þegar eldur kemur upp. Æfingin hjá Thermo Plus tókst mjög vel og starfsfólkið var ánægt og áhugasamt um þjálfunina“, sagði Sigmundur og bætti við að það mætti vera meira um að fyrirtæki taki upp slíka þjálfun fyrir starfsfólk.