Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Allt gistirými að fyllast af strandaglópum
Föstudagur 16. apríl 2010 kl. 15:38

Allt gistirými að fyllast af strandaglópum


Allt gistirými í Reykjanesbæ er að fyllast af erlendum strandaglópum sem komast ekki frá landinu vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Fólk sér fram á að þurfa dveljast í einhverja daga á landinu og hafa ferðaþjónustuaðilar á svæðinu gripið til ráðstafana til að hafa ofan af fyrir fólki á meðan.

„Það verður allt fullt í kvöld. Hingað streyma leigubílar og litlar rútur. Þetta eru bæði strandaglópar sem vantar gistingu en líka fólk sem átti pantað en kemst ekki neitt. Miðað við veðurspár sýnist manni að fólk komist ekkert fyrr á miðvikudag í fyrsta lagi, t.d. fólk sem ætlaði til Noregs,“ sagði Þorsteinn Lár Ragnarsson, hótelstjóri á Hótel Keili í samtali við VF í dag.

-Þannig að það er bara vertíð hjá ykkur?

„Það má kannski segja það. Ég var að lesa að ferðaþjónustan yrði af miklum tekjum vegna þessa goss þannig að þetta vegur eitthvað upp á móti. Það blómstrar allt hér, nóg að gera á veitingastöðunum og börunum. Það er bara hörku líf hérna í bænum,“ sagði Þorsteinn Lár.
Að sögn Þorsteins eru hótelgestirnir bæði Evrópubúar sem komast ekki til meginlandsins og einnig Bandaríkjamenn sem áttu tengiflug á Íslandi til Evrópu en komast ekki lengra.

-Er fólk að hugsa um aðra möguleika eða krókaleiðir til að komast heim?

„Sumir velta því fyrir sér. Hér voru Norðmenn að velta fyrir sér flugi til Glasgow þaðan sem hægt væri að komast áfram með ferjum og lest. Í morgun voru hér flugmenn á einkaflugvélum sem voru að fara til Suður-Afríku. Þeir ætluðu að fljúga til Skotlands, taka sveig fyrir öskuskýið og inn á Spán“

-Er fólk pirrað yfir þessu?

„Kannski sumir en fólk er yfirleitt meðvitað um að þetta er engum að kenna, það ræður enginn við náttúruöflin. Fólk tekur þessu með jafnaðargeði og sýnir þessu skilning. Við reynum að hugsa vel um fólkið. Hótelin hérna, Bláa lónið og Hópferðir Sævars ætla að bjóða upp á ferðir í Bláa lónið yfir helgina gegn vægu gjaldi. Bláa lónið verður með pakkatilboð á baðferð, nuddi og málsverði þannig að fólki líði sem best“.

--

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VFmynd/HBB - Biðin í flugstöðinni getur orðið löng og þreytandi. Fólk leitar því eftir gistingu í Reykjanesbæ.