Allt að 15 íbúðir í nýju húsi að Hafnargötu 56a
Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við deiliskipulagstillögu fyrir Hafnargötu 56 í Reykjanesbæ. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 9. mars nk.
Markmið deiliskipulags er að skilgreina reit á lóðinni fyrir nýbyggingu, Hafnargötu 56a, fyrir verslun, skrifstofu- og þjónustuhúsnæði, hótel og gististarfsemi eða íbúðir. Samkvæmt framkominni tillögu er gert ráð fyrir allt að 15 íbúðum í nýja húsinu. Hús sem fyrir er á lóðinni er varðveitt, en heimilt að breyta innra fyrirkomulagi. Útlitshönnun á nýbyggingu, gluggaskipan og efnisval nýrrar byggingar skal falla vel að eldra húsi og götumynd Hafnargötu, segir í tillögunni.
Í dag er hægt að aka inn og út af bílastæði milli húsanna nr. 56 og 58 við Hafnargötu. Í tillögunni sem nú er í kynningu er gert ráð fyrir að hægt sé að aka inn í einstefnu á milli nýbyggingar og Hafnargötu 58 en útakstur verði þá um Suðurgötu en þar er einnig inn- og útakstur í dag. Þá gerir tillagan ráð fyrir að eitt bílastæði sé á hverja íbúð, innan eða utan lóðar.