Allt að 15.000 bílar fara um varasaman vegkafla á sólarhring
Þung umferð frá Rósaselstorgi að Stekk
Samkvæmt nýjustu tölum frá Vegagerðinni fara allt að 15.000 bílar frá Rósaselstorgi við Flugstöð Leifs Eiríkssonar að hringtorginu við Stekk á Fitjum á hverjum sólarhring.
Undanfarið hefur verið fjallað mikið um öryggi í umferðarmálum á Suðurnesjum. Sérstaklega hafa þau mál snúið að Reykjanesbrautinni og götum sem liggja inn á hana. Hópur íbúa á svæðinu hefur unnið saman að því að þrýsta sérstaklega á yfirvöld til þess að bæta eða tvöfalda Reykjanesbraut allt frá Flugstöðinni inn í Hafnarfjörð.
Fjallað hefur verið um aukna umferð á þessum vegkafla og hafa ýmsar tölur verið þar nefndar til sögunnar. Samkvæmt nýjustu tölum frá Umferðarstofu þá fara á bilinu 11.000 til 14.700 bílar á sólarhring frá Rósaselstorgi við Flugstöð Leifs Eiríkssonar að hringtorginu við Stekk á Fitjum. Þessar tölur eru frá júní 2015 og gera má því ráð fyrir því að þær hafi hækkað síðan þá.
Hér að neðan má sjá fleiri tölur sem bárust frá Vegagerðinni til Guðlaugs H. Sigurjónssonar sviðsstjóra umhverfissviðs hjá Reykjanesbæ.
-Milli Hafnarvegar og Grænáss fara 11.000 bílar pr/sólarhr.
-Milli Þjóðbrautar og Aðalgötu fara 12.500 bílar pr/sólarhr.
-Á Hafnavegi fara 2500 bílar pr/sólarh.
-Á Aðalgötu fara 4000 bílar pr/sólarhr.