Allt á kafi við höfnina
Sjór flæddi yfir allt hafnarsvæðið við Keflavíkurhöfn um hálf áttaleytið í gærkvöldi. Fiskikör fóru af stað og náði sjórinn vel yfir veginn við höfnina. Ekkert tjón varð vegna flóðsins en núna er stórstreymt. Vegna lækkaðs loftþrýstings og stórstreymis hækkar yfirborð sjávar við Keflavíkurhöfn um 40 til 50 sentimetra.
Að sögn starfsmanns hjá Keflavíkurhöfn var fremur rólegt um að litast í höfninni þegar fyrsta haustlægðin gekk yfir landið í gærmorgun. Vindáttin stóð að aust suðaustan en í þeirri átt stendur vindurinn ekki inn í höfnina, auk þess sem grjótgarðurinn ver hana. Í suð suðaustan átt stendur vindurinn beint inn í höfnina og þá verða lætin meiri.
Myndir: Sjórinn flæddi vel yfir hafnarsvæðið við Keflavíkurhöfn í gærkvöldi. VF-ljósmyndir/Hilmar Bragi Bárðarson.