Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Allnokkrir smáskjálftar norðvestur af Grindavík
Sunnudagur 14. apríl 2024 kl. 21:50

Allnokkrir smáskjálftar norðvestur af Grindavík

Allnokkrir smáskjálftar (minni en 1 að stærð) hafa mælst norðvestur af Grindavík síðustu klukkustundirnar. (Sjá yfirlitsmyndir hér að neðan.) Virknin er að megninu til staðsett innan sigdalsins sem myndaðist 10. nóvember og er líklega vegna áhrifa frá landrisinu í Svartsengi sem veldur spennubreytingum á svæðinu. Veðurstofa Íslands greinir frá þessu.

Skjálftavirknin í dag er sambærileg virkni sem mældist á þessu svæði um miðjan mars síðastliðinn. Skjálftavirknin er því ekki merki um einhverjar breytingar í virkninni í eldgosinu sem haldist hefur nokkuð stöðugt um helgina. Skjálftavirknin norðvestur af Grindavík er heldur ekki merki um að kvika sé á ferðinni undir því svæði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar þetta er skrifað hefur aðeins dregið úr skjálftavirkninni norðvestur af Grindavík. Ekki er talið líklegt að stórir skjálftar fylgi þessari virkni sem mælist nú.

Ef kvika færi að leita annað en þá leið sem hún hefur farið yfir í Sundhnúksgígaröðinni, t.d. í vestur í átt að Eldvörpum eða suður af Þorbirni, væri undanfari mögulegs eldgoss á því svæði mjög ákafar skjálftahrinur og aflögun sem kæmi skýrt fram á mælitækjum og gervitunglamyndum. Engin merki eru um slíkt á þessum tímapunkti.

Sólarhringsvakt Veðurstofunnar heldur áfram að vakta svæðið og gosstöðvarnar.

Hrina_14042024_Sigdalur

Myndin sýnir skjálftavirkni á tímabilinu 9. mars til dagsins í dag, 14. apríl. Svörtu línurnar tákna ytri mörk sigdalanna sem mynduðust í tengslum við kvikuhlaupið mikla 10. nóvember 2023 og eldgosið 14. janúar í ár. Yfirgnæfandi meirihluti skjálftanna í dag hefur verið minni en 1 að stærð. Blálitaðir skjálftar urðu 9.-14. mars á meðan rauðlitaðir skjálftar áttu sér stað í dag, 14. apríl. Staðsetning skjálftanna er í vesturjaðri sigdalsins sem myndaðist 10. nóvember sl..

Hrina_14042024_Sprungur

Á svæðinu norðvestur af Grindavík er einnig fylking af þekktum sprungum með norður-suður stefnu sem hnikuðust þegar kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember. Skjálftarnir í dag eru því einnig merki um spennulosun á þessum sprungum vegna landrissins í Svartsengi.