Allir vegir til Grindavíkur lokaðir og umferð óheimil
Vegagerðin hefur lokað fyrir alla umferð til Grindavíkur og birt myndir á Facebook-síðu sinni sem sýna berlega eyðilegginguna sem hefur orðið á vegakerfinu við skjálftana.
Tilkynningin í heild sinni:
„Allir vegir til Grindavíkur eru lokaðir og umferð um þá óheimil. Svo verður áfram eða þar til Almannavarnir telja öruggt að opna fyrir umferð, hvort heldur er takmarkaða umferð eða alla umferð. Það verður ekki í dag eða nótt. Það er ekki að ástæðulausu sem það er lokað, ekki eingöngu vegna jarðhræringa og mögulegs goss heldur einnig vegna ástands veganna eins og þessar myndir sem hér fylgja bera með sér.
Vegagerðin fékk í dag að fara inn á svæðið til að kanna ástand vegakerfisins. Sjá má að vegir í og við Grindavík eru víða mjög illa farnir og ekki hægt að nýta þá í því ásigkomulagi sem þeir eru. Fylgjast má með lokun vega á www.umferdin.is en þar eru upplýsingar uppfærðar jafnóðum og þær berast.
Þá hafa þeir verktakar sem vinna fyrir Vegagerðina í ýmsum framkvæmdum lagt fram tæki og mannskap til að byggja varnargarða komi til þess að farið verði í slíkar framkvæmdir. Vegagerðin mun einnig styðja slíkar aðgerðir á allan þann hátt sem mögulegt er, en Vegagerðin nú sem fyrr kemur að almannavörnum. Enda skiptir vegakerfið gjarnan sköpum í aðstæðum sem þessum.“
Myndasafnið hér að neðan sýnir að staðan er grafalvarleg.