Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Allir hrikalega þreyttir á þessu ástandi
Fimmtudagur 7. apríl 2011 kl. 13:47

Allir hrikalega þreyttir á þessu ástandi

-segir íbúi í Garðinum. Heilbrigðiseftirlitið segist hafa rætt við eiganda fiskvinnslunnar sem segir engan hafa kvartað við sig.

„Það er sama við hvern ég tala. Það eru bara allir orðnir hrikalega þreyttir á þessu ástandi en þetta er ekkert venjulegt. Það kemur fyrir að lyktin liggi yfir okkur heilu og hálfu dagana, fer bara eftir vindátt. Svo fyrir rúmum þremur vikum var sett upp þessi líka svakalega vifta sem að sjálfsögðu er tengd við stóran mótor. Viftan er í útvegg vinnslunnar og hávaðinn sem af mótornum kemur er slíkur að hægt er að ímynda sér að þrír stórir vörubílar gangi stöðugt í yfirsnúningi,“ segir Margrét Eysteinsdóttir íbúi í Garði sem kvartar sáran yfir vondri lykt og hávaða frá húsnæði fiskvinnslufyrirtækisins R.G.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

R.G. hefur verið með saltfiskvinnslu þar sem fiskurinn er þurrkaður í þurrkofnum en nú hefur sú viðbót nýlega bæst við að farið er að þurrka beingarða og hausa og hófst sú vinnsla um áramót. Á því tímabili jókst lyktin frá vinnslunni og hafa nokkrir íbúar í Garðinum kvartað til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja yfir þessari lykt sem leggur yfir bæinn. Þeir segja Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja ekki hafa séð ástæðu til þess að koma þegar hringt hefur verið og gefur þau svör að eigandi vinnslunnar hafi svarað því til að hann þyrfti að loka verksmiðjunni ef hann þyrfti að færa hana annað.

Margrét sagðist ekki geta haft glugga opna í húsinu né hengt út þvott. „Bílarnir anga af pestinni og húsið jafnvel líka þó gluggar séu lokaðir. Það fer að sjálfsögðu eftir vindátt hvaða íbúðahverfi fá þessa viðbjóðslegu fýlu yfir sig en sjálf hef ég haft af því spurnir að þeir séu ansi margir hér í Garðinum sem séu orðnir langþreyttir á þessu ástandi. Minnug þess að Laugafiskur þurfti á endanum að loka sinni vinnslu í Innri-Njarðvík vegna sömu pestar, í Sandgerði lokaði fiskimjölsverksmiðjan vegna sama vandamáls og fleiri dæmi væri hægt væri að telja upp,“ segir Margrét.

Hún sagði einnig að ef til þess kæmi að ætla að selja hús á þessu svæði og væntanlegir kaupendur kæmu til að skoða, þá væri alveg hægt að segja sér það fyrirfram að vindátt yrði að vera hagstæð rétt á meðan því enginn heilvita maður myndi kaupa sér fasteign í nágrenni svona skítalyktar.

Magnús H. Guðjónsson hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja sagðist hafa heyrt af þessu en ekki hefði verið farið í neinar aðgerðir. „Við höfum rætt við eiganda vinnslunnar en við höfum bara fengið kvörtun frá einum aðila,“ sagði Magnús. Viðkomandi sem kvartaði var ekki sá sami og blaðamaður talaði við, þ.e. Margrét. Magnús vildi annars ekki tjá sig nánar um málið og benti blaðamanni á fundargerðir Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja en í fundargerðum síðasta árið var ekkert um þetta mál að finna.

Rafn Guðbergsson, eigandi fiskvinnslunnar R.G., sagði engan hafa kvartað við sig. „Það kom reyndar kona um daginn sem talaði um lykt niður í bæ en hún sagðist ekki getað kvartað við mig því þegar hún kom sagði hún þetta ekki sömu lykt og væri niður frá. Ég er yfirleitt með nýlegt hráefni svo það ætti ekki að koma nein pest, bara smá fiskilykt,“ sagði Rafn. Hann sagði þetta allt saman gert í samvinnu við heilbrigðiseftirlitið en það hefði aðeins hringt einu sinni vegna kvörtunar frá einni konu.
„Þeir hringdu og sögðu einhverja konu hafa kvartað vegna hávaða og lyktar. Það heyrist náttúrulega í þessari viftu og sennilega er hávaði frá henni. Hún bilaði nú einu sinni hjá mér og þá kom pest en það var lagað hið snarasta,“ sagði Rafn.

[email protected]



Rafn Guðbergsson, eigandi fiskvinnslunnar R.G., sagði engan hafa kvartað við sig.