Allir heimiliskettir skulu skráðir fyrir 10. ágúst
Samkvæmt nýrri samþykkt um kattarhald á Suðurnesjum þarf að skrá alla heimilisketti hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja fyrir 10. ágúst n.k.
Skráningargjald er kr. 15.000 en þeir sem skrá ketti sína fyrir 10. ágúst fá 5.000 króna afslátt. Við skráningu kattar skal eigandi/umráðamaður framvísa vottorði frá dýralækni um örmerkingu eða húðflúrmerkingu og spóluormahreinsun kattarins.
Eftir 10. ágúst munu starfsmenn á vegum Heilbrigðiseftirlitsins fanga ketti í fellibúr. Löglega skráðum köttum verður sleppt aftur en óskráðir kettir verða færðir í dýrageymslu. Hafi þeirra ekki verið vitjað innan 7 daga verður þeim ráðstafað til nýrra eigenda, þeir seldir fyrir áföllnum kostnaði eða aflífaðir.
Eigendur sem gefa sig fram skulu greiða skráningargjald og áfallinn kostnað.
Í téðri samþykkt kemur einnig fram að eigendum er skylt að láta ormahreinsa köttinn árlega. Þá bera þeir ábyrgð á tjóni sem kötturinn gæti valdið og verða að tryggja köttinn hjá viðurkenndu vátryggingarfyrirtæki og skal tryggingin ná til alls þess tjóns sem kötturinn getur ollið.
Af vef Reykjanesbæjar