Allir eru góðir í einhverju
Á leikskólanum Hjallatúni er unnið eftir fjölgreindarkenningunni.
„Við trúum því að allir séu góðir í einhverju. Það er ekki hægt að dæma fólk út frá greindarprófi sem aðeins mælir málgreind og rök- og stærðfræðigreind. Við horfum á fólk út frá fleiri greindum,“ segir Ólöf Magnea Sverrisdóttir, leikskólastjóri á Hjallatúni. Á dögunum gaf leikskólinn út bókina í hringekju eru allir snjallir þar sem fjölgreindakenning Howard Gardners er útfærð af starfsfólki leikskólans. Lengi hafði verið unnið eftir fjölgreindakenningunni á Hjallatúni en ekki eins markvisst og í dag. Árið 2010 fannst stjórnendum Hjallatúns eins og hugmyndafræðin væri aðeins á pappírum en ekki í leik og starfi. Þeir settust því niður með sínu fólki og tóku ákvörðun um hvað ætti að gera við hugmyndafræðina. Niðurstaðan varð sú að innleiða kenninguna af fullum krafti inn í nær allt starf skólans. Starfsmannahópar margra leikskóla hafa síðan þá komið á Hjallatún og kynnt sér starfið og útfærslu fjölgreindakenningarinnar og er bókin meðal annars hugsuð fyrir starfsfólk leikskóla sem ætla að taka stefnuna upp eða hluta úr henni og aðlaga að sínu starfi. Í bókinni er hugtakið um opinn leikskóla skilgreint í fyrsta sinn á Íslandi. „Við teljum okkur því vera að skrifa blað í sögu leikskólans með því,“ segir Jóhanna Helgadóttir, verkefnisstjóri á Hjallatúni.
Styrkja börnin
Fjölgreindakenningin gengur út að það að fleiri greindir séu til en aðeins þær sem mældar eru á greindarprófum. Innan kenningarinnar eru átta greindir; málgreind, rök- og stærðfræðigreind, líkams- og hreyfigreind, tónlistargreind, samskiptagreind, sjálfsþekkingargreind, rýmisgreind og umhverfisgreind. Þegar farið var að skoða frekari innleiðingu fjölgreindakenningarinnar á Hjallatúni árið 2011 kom á sama tíma út Aðalnámskrá leikskóla 2011. Í henni er kveðið á um að börn fái að hafa meiri áhrif á það hvað fyrir stafni er í starfinu. Ólöf segir hringekjuna passa vel við Aðalnámskrá leikskóla og við framtíðarsýn Reykjanesbæjar 2011 – 2015.
Kenninguna setti Gardner fram árið 1983 í bókinni Frames of Mind. „Gardner gagnrýndi hefðbundin greindarvísitölupróf og að aðeins væri til ein greind sem væri hægt að mæla með prófi,“ segir Jóhanna. „Hjá okkur er lögð mikil áhersla á samskipti og sjálfsþekkingar- og samskiptagreind er inni í öllu starfinu. Allir þurfa að geta átt samskipti við aðra, geta staðið með sjálfum sér, tekið tillit til annarra og þekkt sjálfan sig og sína styrk- og veikleika.“ Hún segir að þau finni það vel í starfinu að það virki vel að vinna eftir kenningunni. „Það heyrist nær aldrei neitt barn segja að það geti ekki eitthvað. Ef það gerist bendum við þeim á eitthvað sem þau eru góð í og leggjum þannig áherslu á að styrkja þau.“
Gott að læra í gegnum leik
Leikskólinn Hjallatún er opinn leikskóli og er húsnæðinu því skipt upp í stór rými fyrir deildir og sameiginleg svæði. Hver deild á sína heimastofu en annað rými er sameiginlegt. Starfið flæðir svo á milli deilda og börnin velja sér að taka þátt í því sem hentar þeirra áhugasviði, þannig taka allir virkan þátt á sínum forsendum. Flæðið er kallað hringekja og þaðan dregur bókin heiti sitt. „Greindirnar eiga nokkurn veginn sinn fasta stað þar sem unnið er með hverja greind fyrir sig. Kennarar velja sér greindarsvæði og börnin flæða á milli þeirra. Kennarinn er búinn að undirbúa innlögn sem hann notar til þess að vekja áhuga barnanna á viðfangsefni dagsins. Kennarinn er til staðar fyrir börnin, tekur þátt í leiknum og glæðir hann eftir þörfum“ segir Ólöf.
Mikil áhersla er lögð á það að börnin læri í gegnum leik á Hjallatúni. Jóhanna segir ótrúlega skemmtilegt að vinna á þann hátt. „Það er gaman að sjá hvað maður getur gert með leiknum. Börnin læra svo mikið á þann hátt. Í fjölgreindakenningunni er talað um að læra í gegnum þá greind sem hver og einn er sterkur í. Ef styrkleiki barns liggur í tónlistargreind, en síður í rök- og stærðfræðigreind, þá læðir kennarinn inn stærðfræðiþulu í tónlistargreind og eflir færni hjá viðkomandi barni á þann hátt. Börnin eru orðin góð í því að yfirfæra ákveðna þekkingu á aðrar aðstæður,“ segir Jóhanna. Hægt er að kaupa bókina á Hjallatúni. Bókin er fyrir alla sem hafa áhuga á að kynna sér fjölgreindakenningu Howard Gardners í starfi með ungum börnum.