Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Allir að gera eitthvað skemmtilegt
Fimmtudagur 31. ágúst 2023 kl. 09:00

Allir að gera eitthvað skemmtilegt

„Dagskráin er mjög vegleg. Það er allt með hefðbundnu sniði og allir fastir liðir á sínum stað. Þá eru allskonar aðilar sem koma að þessu og og skreyta þessa hátíð,“ segir Guðlaug María Lewis, menningarfulltrúi í Reykjanesbæ. Ljósanótt hefst formlega á fimmtudag og stendur í fjóra daga, til sunnudags. Nokkrir viðburðir eru þó farnir að stinga sér út fyrir þessa daga. Þannig var Ljósanæturhlaupið á þriðjudag og unglingadansleikur er á miðvikudegi. En formleg setning hátíðarinnar er á fimmtudagsmorgni í skrúðgarðinum í Keflavík með leik- og grunnskólabörnum.

Hvert er markmiðið hjá Reykjanesbæ með Ljósanótt? Þú lýstir því á kynningarfundi að þetta væri eins og þið bökuðuð kökuna en síðan ættu allir hinir að koma og hjálpa til við að skreyta hana.

„Já, þetta er svona þátttökuhátíð. Reykjanesbær skapar umgjörðina með stórum og veglegum viðburðum en síðan er þarna tækifæri fyrir fólk til að gera allskonar sýningar, tónleika eða hvað sem því dettur í hug. Markmiðið er klárlega að skapa vettvang til að láta ljós sitt skína og að virkja íbúa. Við viljum fá fólk út úr húsunum sínum, koma saman og eiga saman góðar stundir.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hverjir eru burðar viðburðir hátíðarinnar?

„Ég vil nefna setningarhátíðna á fimmtudagsmorgun, því þar er svo breið þátttaka allra skólanna okkar sem síðan eru með viðburði hver í sínum skóla. Allar listsýningar í bænum verða svo opnaðar kl. 17 og við byrjum í Duus-húsum þar sem opnaðar verða sýningar og við ætlum að taka nýja lyftu í Bryggjuhúsinu formlega í notkun. Ég vil einnig nefna tónleika á fimmtudagskvöldinu, eins og Valdimar í Hljómahöll og Jönu Maríu Guðmundsdóttur.

Á föstudeginum er það klárlega kjötsúpan sem er ómissandi þáttur í dagskránni og við erum með flotta dagskrá á sviðinu en viðburðurinn verður að þessu sinni á torginu framan við ráðhús bæjarins. Þá eru heimatónleikar í gamla bænum og í holtunum.

Á laugardeginum er árgangagangan og allir mætast við stóra sviðið. Þá er blússandi dagskrá um allan bæ og stórtónleikar um kvöldið og flugeldasýningin. Akstur fornbíla verður á laugardeginum en hefur verið fluttur af Hafnargötunni yfir á Ægisgötu. Þá endar hátíðin á sunnudegi og þá er einnig margt skemmtilegt í boði að vanda.“

Þessi veglega dagskrá er að verða þéttari með hverju árinu og byggist á ákveðnum turnum.

„Já, hugmyndin er að allir komi að þessu og það er gaman að sjá fyrirtækin í bænum, hótelin og veitingastaðina að það eru allir að gera eitthvað skemmtilegt.“