Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Mánudagur 28. febrúar 2000 kl. 14:09

Allir að byggja í Vogum

Nýbyggingar eru farnar að skjótast upp úr jörðinni í Vogunum en þetta er mjög áþreifanlegur vaxtabroddur í markaðsmálum sveitarfélagsins. Fjölda lóða er úthlutað á hverjum hreppsnefndarfundi og er svo komið að þörf er orðin á nýjum byggingasvæðum til úthlutunar. Í Leirdal er verið að leggja lokahönd á þrjú einingahús og í Iðndal eru Víðir Pétursson og Hafsteinn Hilmarsson að reisa tvö iðnaðarhúsnæði undir starfsemi sína. Framkvæmdir hafa gengið vel og húsbyggjendur eru hinir ánægðustu. Einingahús í Leirdal Nú er verið að leggja lokahönd á byggingu þriggja einingahúsa í Leirdal í Vogum. Húsin koma frá Finnlandi og eru einstaklega falleg og fljót í byggingu. Hvert um sig eru þau um 170 fermetrar að stærð með bílskúr. Kristján Kristmannsson og Hanna Helgadóttir eiga eitt þessara húsa og að sögn Kristjáns á aðeins eftir að láta þakjárnið á. „Fyrsti sökkullinn var steyptur 3. janúar og byrjað var að reisa fyrsta húsið 1. febrúar. Við fengum fjóra Finna hingað til lands til að koma sperrunum fyrir. Þeir luku verkinu á 8 dögum en svo sáum við um restina“, segir Kristján. Aðspurður kvaðst Kristján hafa ákveðið að byggja einingahús vegna þess hversu gott skipulag þeirra er. „Ég er mjög ánægður með útkomuna og þetta hefur gengið mjög vel.“ Sakna gamla braggans Vélaverkstæði Víðis Pétursson er nú að reisa 310 fermetra stálgrindarhús við Iðndal 6 í Vogum. Víðir segir að húsið væri með sérstaklega háum dyrum til að hægt sé að koma inn bátum en fyrirtækið sér um véðaniðursetningar í báta og ýmis raðsmíðaverkefni. „Það hefur verið nóg að gera og við munum taka sex báta til að byrja með“, segir Víðir. Verkstæðið hefur verið í gömlum bragga síðan 1961 og Víðir segir að það húsnæði hafi verið löngu sprungið. „Það verður algjör lúxus að fara í nýja húsið, en við stefnum á að flytja inn í lok mars. Ég mun samt örugglega sakna gamla braggans, hann lekur á réttum stöðum og blæs, svo loftræsting er óþörf“, segir Víðir og hlær.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024