Allar líkur á að bílastæðin við flugstöðina fyllist um páskana
Forsvarsmenn Isavia gera ráð fyrir því að bílastæði við Keflavíkurflugvöll muni fyllast um páskana líkt og síðustu ár. Vinsælt er meðal Íslendinga að leggja land undir fót í páskafríinu og eru þeir ferðamenn hvattir til að bóka bílastæði við flugvöllinn fyrir brottför til að tryggja sér stæði.
Bókunarkerfi fyrir bílastæði á vefsíðu Keflavíkurflugvallar tryggir farþegum stæði um páskana og sömuleiðis er hægt að fá bílastæðin á betri kjörum en þegar greitt er við hlið. Því fyrr sem bókað er, því lægra verð fæst. Verð á sólarhring í langtímastæðum fyrir þá sem greiða við hlið án þess að bóka stæði fyrir fram er 1.750 krónur.