Allar kennarastöður mannaðar
- hjá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar
Tónlistarskóla Reykjanesbæjar hefur tekist að manna allar stöður kennara fyrir komandi skólaár. Haraldur Árni Haraldsson, skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, var ekki bjartsýnn á vormánuðum með að halda í kennarahópinn sem kemur utan Suðurnesja, þar sem Reykjanesbær hætti að greiða ferðastyrki til kennara, hvort sem það væri endurgreiðsla rútugjalds eða andvirði rútufargjalds upp í eldsneyti.
Í samtali við Víkurfréttir nú í vikunni sagði Haraldur að ræst hafi ágætlega úr stöðunni sem var í vor og fyrr í sumar og nú sé búið að ráða kennara í allar stöður við skólann fyrir komandi vetur.
Af 44 kennurum skólans koma 26 af höfuðborgarsvæðinu.