Algjör himnasending til okkar - enda veitir ekki af
888 úthlutanir í septembermánuði til 1450 einstaklinga. Vegleg gjöf frá IceGroup og Fiskbúð Reykjaness til Fjölskylduhjálpar
„Þetta er stórkostlegt. Algjör himnasending til okkar og enda veitir ekki af, staðan er þannig,“ segir Anna Valdís Jónsdóttir, forstöðukona hjá Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjanesbæ um veglega gjöf frá fyrirtækinu Ice-Group í Reykjanesbæ til Fjölskylduhjálpar Íslands. Fyrirtækið gefur hjálparsamtökunum matargjafir að verðmæti samtals ein og hálf milljón króna eða sem nemur hálfri milljón króna á mánuði í október, nóvember og desember. Matvöruna í október keypti Ice-Group hjá Krónunni, Kjarnafæði og MS og fær veglegan afslátt í viðskiptunum sem skilar sér í meira magni af keyptri nauðsynjavöru.
Anna Valdís hefur veitt Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjanesbæ forstöðu í tólf ár og segir stöðuna aldrei hafa verið verri en einmitt núna. „Það eru svo margir atvinnulausir og að koma í fyrsta skipti til okkar. Hingað eru að koma Íslendingar sem eru án atvinnu og eru heldur ekki komnir á bætur. Ég er að sjá hérna einstæða feður sem eru með börn aðra hverja helgi og eru ekki komnir með bætur. Einnig eru að koma til okkar margir einstaklingar sem eru með tímabundið dvalarleyfi.“
Í síðustu úthlutun hjá Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjanesbæ voru 230 fjölskyldur og einstaklingar sem fengu úthlutað. Í úthlutuninni þar á undan voru yfir 300 og þá kláraðist allur matur. „Nú eru jólin framundan og það bætist alltaf í hópinn fyrir jólin. En staðan er vægast sagt mjög alvarleg hér á Suðurnesjum.“
— Hvernig eruð þið að framkvæma þetta núna í þessu ástandi?
„Ég bað bæjarstjórann okkar að koma hingað í síðustu úthlutun, sem hann gerði. Við leyfðum honum að sjá aðstæður hjá okkur, því við erum ekki með stórt húsnæði til að veita öllu þessu fólki skjól. Okkur finnst hræðilegt að þurfa að láta allt þetta fólk standa úti. Ég spurði bæjarstjórann hvort hann ætti fyrir okkur húsnæði og hann talaði um að lána okkur jafnvel gömlu rútustöðina í Grófinni í desember því við komum jafnvel til með að vera með fleiri úthlutanir í desember, jafnvel vikulega. Þá mun sjálf jólaúthlutunin vera framkvæmd á þremur dögum núna en ekki á einum eins og áður, því við getum ekki lagt þetta allt á sjálfboðaliðana okkar.“
Allt gengur hægar fyrir sig
Í samkomutakmörkunum sem nú eru gengur allt hægar fyrir sig í úthlutunum hjá Fjölskylduhjálp Íslands. Vel er passað upp á tveggja metra regluna og það kemur bara einn inn í einu. „Þannig að þetta er allt miklu seinvirkara. Við pössum uppá að það komi enginn inn grímulaus, það er sprittað og við erum með okkar varnir. Við þurfum að passa vel upp á okkur, því við erum í framvarðasveit að hjálpa fólki sem á ekki neitt.“
Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjanesbæ hefur verið með úthlutanir yfir allt Covid-tímabilið og þurft að gæta að vörnum og ekkert smit hefur komið upp í starfseminni sem er umfangsmikil. Sem dæmi um fjölda úthlutana þá voru 888 úthlutanir í septembermánuði og 1450 einstaklingar á bakvið þær úthlutanir. Þá voru jafnvel að koma 40 fjölskyldur á dag.
Talið berst aftur að gjöfinni frá Ice-Group sem Jón Gunnarsson stýrir. Fyrirtækið hefur undanfarin fjögur ár gefið máltíðir fyrir jólin, hangikjöt og allt meðlæti fyrir fjölda manns. „Nú bætir það um betur og gefur 500.000 krónur á mánuði í þrjá mánuði. Við erum það passasamar hér og erum ekki að bruðla í neitt og kaupum hagstætt og ódýrt. Jón samdi svo við birgja um verulegan afslátt og getur því keypt meira fyrir sitt framlag í heildsölu,“ segir Anna Valdís.
Það eru fleiri að koma að matargjöfum til Fjölskylduhjálpar Íslands nú fyrir jólin, því Kaupfélag Skagfirðinga hefur nýlega gefið 40.000 máltíðir og hluti þeirrar gjafar kemur til Suðurnesja. „Þetta er besta sending sem við höfum fengið því við höfum aldrei fengið svona stóra hjálp eins og þessar gjafir. Gjöfin frá Ice-Group er stærsta gjöf sem við höfum fengið og yndislegt hvernig þau eru að hugsa til okkar.“ Aðspurður sagði Jón Gunnarsson að eigendur Ice-Group væru ekki mikið fyrir að auglýsa svona aðstoð, en nú væri ástandið orðið það alvarlegt að nauðsynlegt væri að fá fleiri fyrirtæki í lið með Fjölskylduhjálpinni og hann vonaðist til þess að umfjöllun nú skilaði fleiri höndum á dekk.
Fleiri leggja lið
Það eru fleiri að leggja Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjanesbæ lið. Sigurður Magnússon, sem á og rekur Fiskbúð Reykjaness, kemur með frosinn fisk til hjálparsamtakanna alla föstudaga. Honum er safnað í frystikistur og fyrir síðustu úthlutun var hægt að veita öllum fisk. „Sigurður er drengur sem er nýbyrjaður með sína fiskbúð og að geta gert þetta er bara yndislegt. Hann gaf einnig 40 gjafabréf, þannig að þær fjölskyldur sem fengu þau gátu farið og valið úr fiskborðinu hjá honum og bara sagt hvað það væru margir í mat. Við létum stærstu fjölskyldurnar sem koma til okkar njóta góðs af því. Það er líka yndislegt fyrir okkur að fá fisk, því hann er eitthvað sem við getum ekki keypt, hann er dýrari en margt annað.“
Anna Valdís segir að það sem þessir stuðningsaðilar Fjölskylduhjálpar eru að gera nú fyrir jólin sé hvatning til annarra fyrirtækja að láta gott af sér leiða því staðan á Suðurnesjum sé vægast sagt mjög slæm. Hún segir að því miður hafi fyrirtæki hér syðra ekki verið að bregðast nógu vel við fram til þessa. Anna Valdís hvetur t.a.m. fiskverkendur til góðra verka. Það sé alltaf vel þegið að fá fisk í matarpakkann.
Hjá Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjanesbæ eru starfandi þrettán sjálfboðaliðar en þeim er að fjölga um þessar mundir. Fyrir jólaúthlutunina þarf að vera tvöfalt teymi, annað á Baldursgötu og hitt í Grófinni, ef það húsnæði fæst til afnota. Þá hafa Soroptimistakonur í Keflavík boðið fram aðstoð sína í jólaúthlutuninni. Anna Valdís segir að það verði mikið álag í desember og því gott að fá fleiri hjálparhendur til að leggja starfinu lið.