Algerlega ótækt að tæpt ár líði á milli funda
N- og L-listar í Garði lýsa yfir óánægju sinni með störf Ferða,- safna- og menningarnefndar sveitarfélagsins.
„Það er algerlega ótækt að tæpt ár líði á milli funda. Síðast var fundað þann 16. febrúar 2012, en þá hafði ekki verið haldinn fundur síðan 31. maí 2011.
Dagskrá síðasta fundar þann 16. feb. sl. var að mestu upptalning á menningarviðburðum sem þegar höfðu verið auglýstir opinberlega. Ferða, safna- og menningarnefnd tilheyra afar mikilvægir málaflokkar og hafa háar fjárhæðir verið lagðar til þeirra. Sveitarfélagið Garður hefur samþykkt stefnu í þeim málaflokkum sem ætti að vera nefndinni leiðarljós í störfum sínum. Fulltrúar N- og L- lista eru heilshugar til samstarfs í þeim málum sem tilheyra nefndinni en eru í minnihluta og hafa því ekki framkvæmdarvald,“ segir í bókun sem lögð var fram á síðasta fundi bæjarstjórnar Garðs.