Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Alexandra Chernyshova hlýtur Súluna 2020
Mánudagur 16. nóvember 2020 kl. 09:12

Alexandra Chernyshova hlýtur Súluna 2020

Afhending Súlunnar, menningarverðlauna Reykjanesbæjar fyrir árið 2020 fór fram fimmtudaginn 12. nóvember, með fremur óhefðbundnu sniði, en afhending fór fram á Facebook síðu Reykjanesbæjar. Verðlaunin eru veitt þeim sem stutt hafa vel við menningarlíf sveitarfélagsins og var þetta í tuttugasta og fjórða sinn sem Súlan var afhent. Að þessu sinni hlaut sópransöngkonan og tónskáldið Alexandra Chernyshova verðlaunin fyrir framlag sitt til eflingar tónlistarlífs í Reykjanesbæ. Verðlaunagripurinn er silfursúla eftir listakonuna Elísabet Ásberg.

Alexandra Chernyshova hlýtur menningarverðlaunin

Alexandra er fædd árið 1979 og uppalin í Úkraínu og Rússlandi en fluttist til Íslands árið 2003 og er nú íslenskur ríkisborgari. Hún hefur tekið virkan þátt í íslensku tónlistarlífi og rekur ásamt eiginmanni sínum, Jóni R. Hilmarssyni, menningar- og fræðslufyrirtækið „DreamVoices“ frá árinu 2006. Alexandra hefur verið afkastamikil og hefur meðal annars stofnað kóra, óperufélag, haldið fjölmarga tónleika, gefið út geisladiska og samið tónlist. Í öllum þessum verkefnum hefur hún virkjað og fengið til liðs við sig fjölda listamanna, innlenda sem erlenda. Alexandra hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir árangur sinn á sviði tónlistar. Árið 2014 var hún valin í hóp tíu framúrskarandi ungra Íslendinga fyrir framlag sitt til menningar á Íslandi. Þá komst hún á topp tíu listann í World Folk Vision, alþjóðlegri tónlistarkeppni í sumar, með laginu Ave María úr frumsömdu óperunni „Skáldið og biskupsdóttirin.“ Nú í haust sigraði hún í alþjóðlegri tónskáldakeppni í Moskvu fyrir tónsmíð úr sömu óperu sem samin er við handrit Guðrúnar Ásmundsdóttur. Þessa dagana situr Alexandra við skriftir á sinni þriðju óperu „Góðan daginn, frú forseti.“ Óperan, sem verður í fullri lengd, fjallar um ævi og störf frú Vigdísar Finnbogadóttur. Frá því að Alexandra flutti til Reykjanesbæjar árið 2016 hefur hún haldið árlega stofutónleika heima hjá sér auk þess sem hún hefur staðið fyrir nýárstónleikum í samstarfi við fleiri tónlistarmenn af Suðurnesjum um nokkurra ára skeið. Þá hefur hún einnig heimsótt fjölmarga leikskóla á svæðinu með „Ævintýrið um norðurljósin“, óperuballett sem hún samdi tónlist við, en verkið var frumsýnt í Norðurljósasal Hörpu 2017.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson afhenti Alexöndru verðlaunin og sagði við það tilefni m.a.: „Slagorð Reykjanesbæjar, í krafti fjölbreytileikans, á einstaklega vel við í tilfelli Alexöndru. Hún er frábært dæmi um það hversu mikið það auðgar samfélag okkar að hér búi fólk af ólíkum uppruna með fjölbreytta menningu í farteskinu sem við öll njótum góðs af.“

Bæjarstjórinn stjanaði við hvítvínskonur

Í viðburðinum á Facebook, þar sem verðlaunin voru afhent, brá bæjarstjórinn á leik með hinum alræmdu hvítvínskonum en þann hóp skipa nokkrar konur með rætur í Leikfélagi Keflavíkur. Hvítvínskonurnar hafa slegið rækilega í gegn við hin ýmsu tækifæri í bæjarlífi Reykjanesbæjar sem miðaldra dömur sem nýta hvert tækifæri til að sækja hina ýmsu menningarviðburði með von um ókeypis hvítvínslögg. Ferðaðist hópurinn m.a. með strætó að heimili Alexöndru þar sem bæjarstjórinn lék á fiðlu fyrir dömurnar og stjanaði við þær áður en hann bankaði upp á á heimili Alexöndru og afhenti henni verðlaunin með kveðju frá bæjarstjórn og menningar- og atvinnuráði.