Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Aldrei verið sterkara bakland í íslenskri stéttabaráttu en nú“
Föstudagur 22. október 2004 kl. 14:08

„Aldrei verið sterkara bakland í íslenskri stéttabaráttu en nú“

Eiríkur Jónsson formaður Kennarasambands Íslands ræddi við kennara á Suðurnesjum í 88-Húsinu í Reykjanesbæ í dag. Eiríkur tók fram að kennarar væru öfundaðir af forystumönnum annarra stéttarfélaga fyrir það bakland sem kennarar búa að.

Fundi deiluaðila í kennaraverkfallinu lauk í gær þegar ljóst varð að hugmyndir sem Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari lagði fram nægðu ekki til sátta. Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar 2. nóvember en samninganefndir geta hist fyrr telji þær ástæðu til. Guðbrandur Stefánsson, kennari í Reykjanesbæ og fundarstjóri í dag sagði samstöðu kennara mikla og að það væri ekki á dagskrá að fara að gefa eftir þegar svo langt inn í baráttuna væri komið.

Eiríkur Jónsson var stoltur af þrautsegju kennara og sagði: „Það hefur ekki, í mínu minni, verið sterkara bakland í íslenskri stéttabaráttu en einmitt nú.“

Birgir Björn Sigurjónsson formaður launanefndar sveitarfélaganna segir að launanefndin hafi engin ráð sem kalli á fund með kennurum næsta hálfa mánuðinn. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, tilkynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun að hann hafi ákveðið að boða samninganefndir kennara og Launanefndar sveitarfélaga á sinn fund á mánudaginn. Þetta var niðurstaða hans og Ásmundar Stefánssonar, ríkissáttasemjara, eftir að slitnað hafi upp úr samningaviðræðum deiluaðila í gær. Halldór hefur þegar haft samband við fulltrúa kennara og sveitarfélaga og munu þeir mæta á fund með fulltrúum ríkisstjórnarinnar á mánudag.

VF-myndir/ Jón Björn


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024