Aldrei verið sjómaður
– ritstjórnarbréf eftir Hilmar Braga Bárðarson
Hef aldrei verið sjómaður. Það er hins vegar sjómannsblóð í fjölskyldunni. Afi minn, Bragi Einarsson frá Nýjabæ í Garði, var fengsæll skipstjóri. Það sem ég hef komist næst sjómennsku var þegar ég sem gutti fór í róður á opnum bát frá Gerðabryggju með föðurbróður mínum og frænda. Veiddi nokkrar ýsur á handfæri. Aldrei borðað betri fisk. Það er jú sagt að það bragðist best sem maður veiðir sjálfur. Það sem ekki fór í soðið var selt í fiskvinnslu í Garðinum. Hásetahluturinn var 500 krónur. Fór í loðnutúr með Bóba á Sjávarborginni mörgum árum síðar sem ljósmyndari. Síðan þá hafa einu stundirnar til sjós verið ferðir með Akraborginni upp á Skaga, með Baldri yfir Breiðafjörð og með Herjólfi til Eyja. Kannski einu sinni á sjóstöng frá Grófinni og svo er til mynd af mér á sjóstöng við Grindavík. Þetta er mín sjómennska
Ber ómælda virðingu fyrir sjómönnum. Hef á þessum næstum 30 árum hjá Víkurfréttum kynnst því hversu hættulegt sjómannsstarfið er. Mannskaðar og skipsskaðar til sjós. Menn hverfa í hafið og finnast ekki aftur. Þegar maður kíkir á bryggjuna til að afla frétta þegar vel veiðist sér maður samt gleðina í augum sjómanna. Hitti einn í vetur sem var að koma úr þriðja róðrinum á þrjátíu tímum og búinn að draga 30 tonn úr sjó. Hann var þreyttur og sæll og næstum sofnaður í sjónvarpsviðtali sem ég tók við hann. Um helgina er hátíð til heiðurs sjómönnum. Sjómannadagurinn og Sjóarinn síkáti haldinn hátíðlegur í Grindavík. Ég verð þar. Ætla ekki allir að kíkja á sjómannahátíðina í Grindavík? Til hamingju sjómenn!
Hilmar Bragi Bárðarson