Aldrei fundið fyrir neinni mengun frá kísilverinu
Jakob Jakobsson, lögfræðingur og íbúi í gamla bænum í Keflavík, hefur sent Umhverfisstofnun tölvuskeyti þar sem mótmælt er framgöngu Umhverfisstofnunar í máli gegn United Silicon. Jakob sendi afrit af tölvupósti sínum til United Silicon og Reykjanesbæjar en fyrirsögn tölvupóstsins er „Meint mengun frá United Silicon“.
Í póstinum, sem sendur var sl. fimmtudagskvöld, segir m.a.: „Undirritaður býr ásamt fleirum í gamla bænum í Keflavík. Í mikilli nánd við meinta mengun! Undirritaður er mikið úti við með hund sinn á veginum sem liggur frá gömlu höfninni að verksmiðjunni. Undirritaður er með undirliggjandi veikindi vegna heilaáfalls.
Það vekur furðu undirritaðs að heyra og sjá fréttaflutning af máli US í fjölmiðlum! Virðist fréttaflutningurinn byggjast á huglægum gögnum fyrst og fremst, enda hefur ekkert komið fram opinberlega sem sýnir að meint mengun US sé ástæða vanlíðan meintra íbúa og meintra kvartana þeirra.
Ég fyrir mitt leiti mótmæli því að Umhverfistofnun beiti valdheimildum sínum þegar ekki er sýnt að betri gögn liggi til grundvallar en fjallað er um. Stjórnvald á ekki að beita valdheimildum nema að vel ígrunduðu og eftir rökstuddu mati byggðu á hlutlægum raunverulegum þáttum.
Undirritaður, sonur minn 19 ára sem og aðrir íbúar í mínum húsum hafa aldrei fundið fyrir neinni mengun né nokkurskonar óþægindum vegna þessa fyrirtækis sem hér er nefnt! Og það þó nálægðin með því mesta sem finnst í þessum bæ.
Þess skal getið að undirritaður hefur enga hagsmuni að gæta i máli þessu, þekkir enga í Reykjanesbæ né í meintu fyrirtæki. Mér ber einfaldlega borgaraleg skylda til að tjá mig um það sem mér finnst vera óhóflegt og illa ígrunduð valdbeiting.“
Jakob sendir svo annan póst stuttu síðar á sömu aðila:
„ps.þess má geta sem gleymdist hérna áðan að ein alvarlegasta afleiðing heilaáfalls mín er aukin næmni skynfæra, td. hefur næmni vegna lyktar og hljóðs aukist til muna.
Að því leiti ætti undirliggjandi sjúkdómur minn að leiða til þess að ég fyndi enn frekar fyrir breytingum eins og loftmengun.
En svo er bara alls ekki?“