Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aldrei fleiri umsóknir um atvinnuleyfi
Þriðjudagur 14. mars 2006 kl. 10:25

Aldrei fleiri umsóknir um atvinnuleyfi

Umsóknir um atvinnuleyfi fyrir erlent vinnuafl hafa aldrei verið fleiri en um þessar mundir, að sögn Kristjáns Gunnarssonar, formanns Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis . Fyrir utan leyfi fyrir erlenda starfsmenn á vegum fyrirtækja Flugleiða í Leifsstöð, sé mesta ásóknin úr byggingageiranum og þar á eftir komi fiskvinnslan. Kristján segir að síðasta mánuðinn hafi um og yfir 100 umsóknir um atvinnuleyfi borist til VSFK og nær eingöngu sé um að ræða leyfi fyrir vinnuafl frá Póllandi.

Á vef Vinnumálastofnunar kemur fram að 238 manns voru skráðir atvinnulausir á Suðurnesjum nú í byrjun vikunnar. Hvað veldur því, á sama tíma og verið er að sækja um öll þessi atvinnuleyfi?
„Það eru ýmsar og stundum flóknar skýringar á þessu. Fyrst ber að nefna að þetta eru tölur yfir kennitölur en ekki hlutfall, sem þýðir að á skrá er einnig fólk í hlutastörfum og á hálfum bótum. Þannig að ef dregið er saman starfs- og bótahlutfall, þá minnkar þessi tala umtalsvert. Mjög oft er krafist einhverja réttinda, s.s. vinnuvélaréttinda í þau störf sem eru á lausu, sem þýðir að eftirspurnin er mikil í þessi hefðbundnu karlastörf, t.d. í byggingariðnaði. Ef skoðað er hlutfall kynja á atvinnuleysisskrá þá sést að konur eru í miklum meirihluta. Að síðustu má nefna að það er alltaf nokkur umferð í gegnum atvinnuleysisskrána, þarna er talsvert af fólki með skamma viðkomu, er jafnvel bara á milli starfa. Þannig að þessar tölur segja ekki alla söguna“, sagði Kristján Gunnarsson.

Kristján gat þess ennfremur að við þau stóru meginverkefni sem nú standa yfir á svæðinu, væru fæstir starfsmenn af Suðurnesjum. Við tvöföldun Reykjanesbrautar starfi einn Suðurnesjamaður, innan við 20 við virkjunina á Reykjanesi og við framkvæmdir í Leifsstöð séu verkamenn nær eingöngu Pólverjar á vegum Ístaks. Iðnaðarmenn þar komi að mestum hluta frá Reykjavíkursvæðinu og stór hluti þeirra erlendir. Á þessum þremur vinnustöðum sé mikill fjöldi erlendra starfsmanna á atvinnuleyfum útgefnum í Reykjavík.
„Það hefur því ekki verið leitað eftir vinnuafli héðan af svæðinu nema að litlu leiti til starfa við þessi verkefni sem þýðir að Suðurnesjamenn eru ekki að njóta ávaxtanna af þeim. Útsvar og skattar þessa fólk greiðast ekki í bæjarsjóði hér á svæðinu, svo mikið er víst. Þannig að þegar þessum verkefnum líkur verður það ekki svo mikið högg á atvinnulífið hér“, sagði Kristján.

Mynd: Mikill skortur er á vinnuafli í byggingariðnaði og er talsvert sóst eftir erlendu vinnuafli, aðallega Pólverjum. Myndin tengist ekki fréttinni beint.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024