Aldrei fleiri umsóknir í Háskólabrú
Aldrei hafa jafn margar umsóknir borist um nám í Háskólabrú Keilis á haustönn og fjölgar þeim mikið milli ára. Mun árgangurinn sem hefur nám á haustönn 2017 því verða með þeim fjölmennustu frá upphafi.
Keilir hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla frá árinu 2007 og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum. Nú geta nemendur valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu. Þá mun Keilir bjóða upp á Háskólabrú á ensku frá og með haustinu. Námið er hugsað fyrir einstaklinga með annað móðurmál en íslensku sem hyggja á nám í Háskóla Íslands en hafa ekki lokið stúdentsprófi. Námið hefst í október og er umsóknarfrestur til 11. september næstkomandi.