Aldrei fleiri nemendur í Háskólabrú
Þriðja útskrift Keilis á árinu
Samtals brautskráðust 42 nemendur frá Keili við hátíðlega athöfn föstudaginn 14. ágúst síðastliðinn. Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis, flutti ávarp og stýrði athöfninni, en vegna aðgangstakmarkanna var athöfnin send út í beinu streymi. Hægt er að nálgast upptöku af útskriftinni á heimasíðu og Facebooksíðu Keilis.
Keilir brautskráði 21 nemanda af Verk- og raunvísindadeild Háskólabrúar. Með útskriftinni hafa alls 186 nemendur lokið Háskólabrú á þessu ári og samtals yfir 2.000 nemendur frá fyrstu brautskráningu Háskólabrúar Keilis árið 2008. Skólasetning Háskólabrúar fór fram fyrr í vikunni og er heildarfjöldi nemenda í frumgreinanámi í Keili nú um 300 talsins og hafa aldrei verið fleiri. Er þetta fjórða árið í röð þar sem metfjöldi umsókna berst í Háskólabrú Keilis.
Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp auk þess sem Kristófer Aron Garcia flutti ræðu útskriftarnema. Dúx var Pétur Arnar Úlfarsson með 9,74 í meðaleinkunn sem er hæsta meðaleinkunn í sögu Háskólabrúar Keilis. Fékk hann gjöf frá HS orku sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur.
Keilir hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla frá árinu 2007 og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda. Nú geta nemendur því valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu. Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans. Keilir hefur markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur. Kennsluhættir miða við þarfir fullorðinna nemenda, miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir. Kannanir í Háskóla Íslands á gengi nýnema hafa sýnt að nemendur sem koma úr Háskólabrú Keilis eru meðal þeirra efstu yfir þá sem telja sig vel undirbúna fyrir háskólanám.
Hæsta meðaleinkunn í sögu einkaþjálfaranáms Keilis
21 nemandi brautskráðist sem ÍAK einkaþjálfari frá Íþróttaakademíu Keilis og með útskriftinni hafa samtals 668 einstaklingar lokið einkaþjálfaranámi frá skólanum.
Arnar Hafsteinsson forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis flutti ávarp. Wiktoria Marika Borowska fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur 9,83 í meðaleinkunn, sem er hæsta meðaleinkunn í sögu námsins. Hún fékk nuddbyssu frá Hreysti sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Magnús Jónsson Núpan flutti ræðu útskriftarnemenda fyrir hönd Íþróttaakademíu Keilis.
ÍAK einkaþjálfaranám Keilis er eina einkaþjálfaranám á Íslandi sem er viðurkennt af menntamálaráðuneytinu sem starfsnám á þriðja hæfniþrepi og gæðavottað af Europe Active á fjórða þrepi samkvæmt reglum Evrópusambandsins (Level 4 Personal Trainer stofnunarinnar). Vottunin er gæðastimpill á því námi sem skólinn hefur boðið upp á undanfarin ár.
Myndatexti: Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis.
Myndir tók Oddgeir Karlsson.