Aldrei áður orðið flökurt af lyktinni

„Núna þarf að hafa gluggana lokaða í þessu fína veðri út af þessari stækju,“ segir ósáttur íbúi Reykjanesbæjar í Facebook hópnum „Reykjanesbær - Gerum góðan bæ betri“, en þar hafa margir látið í heyra síðustu daga vegna mikillar lyktar frá kísilveri United Silicon.

Í Facebook hópnum eru margir sem tjá sína skoðun á málinu en flestir sem þar skrifa eru mjög ósáttir með starfsemi kísilversins. Lykt hafi fundist víðs vegar um bæinn síðustu daga, þ.m.t. í Heiðarhverfinu, við Nettó í Krossmóa, við Njarðvíkurskóla, á Smáratúninu og á Blikabraut sem dæmi og greinilegt að lyktin berist ekki eingöngu á afmarkað svæði í bænum.

Annar íbúi bætir því við að lyktin í nótt hafi verið sú sterkasta sem hann hafi fundið hingað til og ekki sé hægt að bjóða íbúum svæðisins þetta lengur. „Ég hef fundið þessa lykt áður en aldrei orðið flökurt af henni eins og í dag.“