ALDAMÓTAGLEÐIN Í SANDGERÐI
Mikil hátíðahöld verða í Sandgerði vegna árþúsundamótanna. Sandgerðisbær hefur látið útbúa kampavínsstaup og sérstök aldamótamerki fyrir starfsfólk bæjarfélagsins og eldri borgara í Sandgerði. Jafnframt hefur verið efnt til samkeppni um aldamóta lag eða ljóð og verða úrslit kynnt á hátíðahöldunum að kvöldi 31. desember.Skrúðganga verður farin frá nýja Landsbankahúsinu, suður Suðurgötu og að brennustæði. Í henni verða kóngur og drottning, álfar, púkar og ýmsar aðrar furðuskepnur. Gangan leggur af stað kl. 19:45 og eru allir hvattir til að skilja bílinn eftir heima, klæða sig vel og koma í skrúðgönguna. Þeir sem eiga grímur og grímubúninga eru hvattir til að taka þá fram, dusta af þeim rykið og yfirfara þá. Jafnframt hvetur Hattavinafélagið alla til að ganga með hatta þennan dag.Vegleg hátíðadagskrá verður á sviði við brennuna, sem er við nýja íþróttavöllinn. Dagskrá verður send út fimmtudaginn 30. desember. Brennan verður glæsileg í ár og er sem fyrr í umsjá Knattspyrnufélagsins Reynis. Þeir aðilar sem þurfa að losna við timbur og brennanlegt efni er bent á að hægt er að koma því upp að brennustæði til fimmtudagskvölds. Athugið að ekki má setja gúmmí eða plast á brennuna. Flugeldasýning Sigurvonar verður sú glæsilegasta og dýrasta sem haldin hefur verið í sögu Sandgerðis.Bæjarstjórn vill varðveita minninguna um þá sem upplifðu aldamótin í Sandgerði árið 2000 og hefur því sent út sérstök myndaspjöld. Mælst er til að fólk festi mynd af sinni fjölskyldu á spjöldin ásamt upplýsingum um þá sem eru á myndinni og skili þeim á bæjarskrifstofuna.Nánari upplýsingar um Aldamótahátíðina í Sandgerði er hægt að fá hjá Ólafi Þór Ólafssyni í síma 898-4719 eða hjá Reyni Sveinssyni í síma 897-8007.