ALDA SKEMMDARVERKA Í ÁGÚST
Lögreglan í Keflavík hefur áhyggjur af öldu skemmdarverka sem reið yfir Reykjanesbæ í ágústmánuði. Fjöldi bifreiða og vinnuvéla varð fyrir árásum skemmdarvarga sem í flestum tilfellum létu sér nægja að brjóta rúður og lakk bifreiðanna. Að sögn Karls Hermannssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, eru nokkur mál upplýst en grunur leikur á að sami aðili hafi verið að verki í fjölda tilfella. Hvatti Karl bæjarbúa til að vera vel vakandi fyrir ferðum ókunnugra seint að kvöldi og undir morgun um helgar.