Ákvörðun um línulögn vel ígrunduð - segir bæjarfulltrúi í Vogum
„Það má vera hverjum ljóst að hitnað hefur í kolunum undanfarið í Vogunum. Meirihlutinn er sprunginn í kjölfar ákvörðunar um að hafna fyrirhugaðri línulögn. Eins og áður hefur komið fram er vinnan í kringum þetta mál mjög sérstök og hefur tekið mörg ár. Ákvörðunin er því tekin að vel ígrunduðu máli,“ segir Oddur Ragnar Þórðarson, bæjarfulltrúi í Vogum á Vatnsleysuströnd en eins og kemur fram á vf.is sprakk meirihluti bæjarstjórnar í gær. Er óhætt að segja að viðbrögð hafi verið mjög mikil við ákvörðun Vogamanna að slá línulögn út af borðinu og vilja eingöngu línulögn í jörð.
„Ákvörðuninni til grundvallar er lagður listi með undirskrift meirihluta bæjarbúa, vilji meirihluta landeigenda og svo síðast en ekki síst skýrsla Almennu Verkfræðistofunnar þar sem verulegar athhugasemdir eru gerðar við kostnaðarmat Landsnets. Af þessum forsendum gefnum vill meirihluti Bæjarstjórnar Voga taka upp samninga við Landsnet.
Hvað orð Harðar Harðarsonar varðar á vf.is um þetta mál og meintar samræður hans við bæjarfulltrúa hef ég þetta að segja: Þó svo menn taki ekki þátt í dómsdags umræðunni þýðir það ekki að menn geri sér ekki grein fyrir hugsanlegum afleiðingum þessa máls“ segir Oddur Ragnar.