Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ákvað í 10. bekk að verða þingmaður
Föstudagur 28. apríl 2017 kl. 06:00

Ákvað í 10. bekk að verða þingmaður

Bjarni Halldór Janusson er yngsti sitjandi þingmaður sögunnar

„Ég hef ætlað mér þetta frá því ég var í 10. bekk í grunnskóla. Í dag flutti ég ræður um kennaraskort í samfélaginu, sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum og eflingu verk- og iðnnáms,“ sagði Njarðvíkingurinn Bjarni Halldór Janusson yngsti sitjandi þingmaður Íslands frá upphafi, en hann leysti Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, af í vikunni. Bjarni var í fjórða sæti á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi í síðustu kosningum.

Áður var Víðir Smári Petersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sá yngsti frá upphafi en þegar hann hóf þingsetu árið 2010 var hann 21 árs og 328 daga gamall. Á fyrsta degi Bjarna á þingi var hann hins vegar 21 árs og 141 daga gamall. Bjarni er einnig nemi í stjórnmálafræði og heimspeki við Háskóla Íslands og er þar að auki í stúdentaráði skólans.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég hef ætlað mér þetta frá því ég var í 10. bekk í grunnskóla. Í dag flutti ég ræður um kennaraskort í samfélaginu, sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum og eflingu verk- og iðnnáms. Í vikunni mun ég svo flytja enn fleiri ræður og leggja fram þingsályktunartillögu um sálfræðiþjónustu í opinberum háskólum. Mér þótti einstaklega vænt um að vera með bindi afa míns, sem var mér mikill stuðningsmaður, en það hafði ég fengið fyrr í þessum mánuði skömmu eftir að hann lést,“ er meðal þess sem Bjarni skrifar í Facebook færslu í vikunni. Í samtali við Víkurfréttir segir hann umfjöllunina hafa að mestu leyti verið jákvæða. „Sérstaklega þykir mér vænt um hve vel mér hefur verið tekið á þingi. Hingað til er búið að ganga mjög vel, en þetta hefur auðvitað verið krefjandi. Maður er að fara á fætur eldsnemma morguns og er að til miðnættis. Ég hef flutt þó nokkrar ræður nú í vikunni. Þar hef ég komið inn á nokkur mikilvæg mál, svo sem skólamál, geðheilbrigðismál og almenn mál er varða ungt fólk fyrst og fremst.“

Í ræðum sínum á Alþingi talaði Bjarni meðal annars um mikilvægi þess að veita nemendum með geðræn vandamál og námsörðugleika nauðsynlega þjónustu, að kennarastéttinni sé sýnd sú virðing sem hún eigi skilið og benti á að algengasta dánarorsök íslenska karlmanna á aldrinum 18 til 25 ára sé sjálfsvíg og að skylda Alþingis sé að bregðast við þeim vanda sem allra fyrst.

[email protected]