Ákærður fyrir manndráp

Ríkissaksóknari gaf á föstudaginn út ákæru á hendur rúmlega þrítugum karlmanni í Reykjanesbæ vegna manndráps. Hinn ákærði játaði í sumar að hafa banað 53 ára gömlum manni að morgni 8. maí. s.l.  Sá fannst látinn með mikla áverka við Bjarnarvelli í Reykjanesbæ. Hinn ákærði var handtekinn fljótlega eftir að rannsókn málsins hófst og hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan. 
Málið varðar 211. grein almennra hegningarlaga en í henni segir að hver sem svipti annan mann lífi skuli sæta fangelsi ekki skemur en 5 ár, eða æfilangt.
Mennirnir tveir þekktust ekki. Komið hefur fram að leiðir þeirra hafi legið saman á umræddum stað. Eftir orðaskipti hafi hinn ákærði veist að manninum með þessum hörmulegu afleiðingum.
---
VFmynd/Hilmar Bragi - Lögregla á vettvangi við Bjarnarvelli í vor.

 
	
			

 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				