Ákærður fyrir bílabruna við Iðavelli
Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir bílabruna sem varð á bifreiðaplani Lykilbíla í Reykjanesbæ fyrir tæpum fjórum árum. Manninum er gefið að sök að hafa tendrað eld með kveikjara og borið að eldsneytisbrúsa og þannig kveikt í Suzuki Grand Vitara með þeim afleiðingum að eldurinn breiddist til fjögurra annarra bíla. Það er vefur RÚV sem greinir frá þessu. Þar segir að málið verði þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í næstu viku. Maðurinn ásamt jafnaldra sínum er einnig ákærður fyrir þjófnað.
Þeir eru í ákærunni sagðir hafa gert gat með skrúfjárni á eldsneytistanka þriggja bíla og látið eldsneyti renna renna í gegnum götin af tönkunum í brúsa sem þeir höfðu meðferðis.
Annar maðurinn er síðan ákærður fyrir bílabrunann. Hann er sagður hafa með háttsemi sinni valdið eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu sem og hættu á eyðingu allra annarra bifreiða sem á bifreiðaplaninu stóðu.
Fram kom í fréttum RÚV að lögreglan hefði á sínum tíma fundið frumstæða bensíndælu á vettvangi. Mennirnir tveir voru síðan handteknir skömmu eftir eldsvoðann en þá kom í ljós að annarra þeirra hafði brennst nokkuð á fótum.