Akademían óbreytt
Kennsla við Íþróttaakademíuna í Reykjanesbæ verður með sama sniði næsta skólaár og verið hefur síðustu misseri. Sögusagnir um annað eru misskiliningur að sögn Stefaníu Katrínar Karlsdóttur, framkvæmdastjóra heilsu- og uppeldisskóla Keilis, sem rekur Íþróttaakademíuna. Íþróttafræðinám í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, einkaþjálfaranám og afreksbrautin í samvinnu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja verða áfram á boðstólum.
„Eins og staðan er núna verður þetta óbreytt. Við verðum með allt áfram og hyggjumst bara bæta við okkur. Við munum í haust bjóða upp á hjúkrunarbrú fyrir sjúkraliða [undirbúningur fyrir nám í hjúkrunarfræði], leikskólaliðanámið er líka að fara af stað hjá okkur og svo erum við að skoða ýmsa möguleika. Við viljum gjarna skoða meira heilbrigðistengt nám eins og til dæmis hjúkrunarfræði.“
Stefanía sagði hins vegar að ekki væri hægt að segja hvenær slíkt nám yrði í boði þar sem það er enn í undirbúningi. Hins vegar er búið að opna fyrir umsóknir í allar fyrrnefndu deildirnar og upplýsingar á www.keilir.net