Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Áhyggjur vegna flutnings á málefnum fatlaðra
Fimmtudagur 23. september 2010 kl. 09:58

Áhyggjur vegna flutnings á málefnum fatlaðra


Flutningur á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga mun að óbreyttu eiga sér stað nú um áramótin. Komið hafa fram áhyggjur meðal sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum þess efnis að undirbúningur sé ekki nægjanlegur. Þessar áhyggjur komu m.a. fram á aðalfundi SSS nýverið en þar lögðu fulltrúar Grindvíkinga það til að flutningnum yrði frestað um eitt ár þar sem þeir telja óvissu ríkja um stöðu og framkvæmd yfirfærslunnar.
Kristinn Þór Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknar í Reykjanesbæ, er einn þeirra sem hefur áhyggjur af því að undirbúningi að þessu stóra verkefni sé ábótavant hjá Reykjanesbæ. Óskaði hann eftir því á síðasta bæjarstjórnarfundi að fá ítarlegar upplýsingar um á hvaða stigi undirbúningsvinnan er.

Skiptar skoðanir eru um ágæti þess að fresta yfirfærslunni, eins og bæjaryfirvöld í Grindavík hafa lagt til. Fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga lýsti þeirri skoðun sinni á fundi SSS að óheppilegt væri fyrir alla aðila að fresta henni  þar sem undirbúningur væri það langt á veg kominn. Frestun gæti hugsanlega leitt til þess að hætt yrði við verkefnið. Þar með yrði engin framþróun í þessum málaflokki næstu árin.

Grindvíkingar segja hins vegar óleyst mörg veigamikil verkefni í viljayfirlýsingu milli ríkis og sveitarfélaga. Öll lagaframvörp hafi ekki verið afgreidd, s.s. um réttindagæslu fatlaðs fólks og eftirlit með þjónustu. Ný búsetureglugerð sé ekki tilbúin og ekki hafi öll sveitarfélög staðfest ný þjónustusvæði. Þetta kalli á meiri umræðu ekki síst með tilliti til þess hvort framlög til málaflokksins séu nægileg.

„Framsókn leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að yfirfærslan sé unnin faglega og innan tímaramma svo tryggja megi fötluðum og aðstandendum þeirra örugga og góða þjónustu á vegum bæjarfélagsins. Mikilvægt er að bæjarfélagið varðveiti og haldi í þá þekkingu og reynslu sem starfsfólk og stjórnendur búa yfir. Tryggi gott eftirlit með þjónustunni og endurmenntun starfsfólks. Endurskoðunarákvæði í þjónustusamningi við ríkið varðandi tekjustofn og hugmyndafræði, verða að vera skýr. Einnig þarf að tryggja samvinnu þeirra sem að koma þ.e. notenda, aðstandenda, hagsmunasamtaka, starfsfólks, fræðimanna og stjórnmálamanna,“ segir Kristinn Þór í bókun sem hann lagði fram á síðasta bæjarstjórnarfundi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024