Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Áhyggjur af niðurstöðum áfangaskýrslu
Fimmtudagur 25. október 2012 kl. 09:25

Áhyggjur af niðurstöðum áfangaskýrslu

Áfangaskýrsla Suðurnesjavaktarinnar fyrir árið 2012 var lögð fram í bæjarráð Grindavíkur í gær. Bæjarráð lýsir yfir áhyggjum af þeim niðurstöðum sem skýrslan gefur til kynna, þó atvinnuástand í Grindavík sé talsvert betra en annarsstaðar á svæðinu. Bæjarráð fagnar því að stefnt sé að því að grípa til mótvægisaðgerða með skipulögðum hætti. 

Miklar vonir eru t.d. bundnar við árangur af verkefni menntamálaráðuneytisins um eflingu menntunar á Suðurnesjum. Ljóst er að menntunarstig á svæðinu batnar ekki nema fjármagn fylgi, en framlög ríkisins til Fjölbrautaskóla Suðurnesja eru lægri á hvern nemanda en í öðrum sambærilegum skólum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bæjarráð vísar skýrslunni til félagsmálanefndar til upplýsingar.

Hér má sjá helstu niðurstöður skýrslunnar:

  • Dregið hefur meira úr atvinnuleysi á Suðurnesjum en á öðrum landsvæðum en er sem fyrr langmest á Suðurnesjum. Í maí 2012 mældist atvinnuleysi á svæðinu 9,4% en var 12,1% á sama tíma árið 2011. Á landinu öllu mælist atvinnuleysi 5,6% en var 7,4% á sama tíma árið 2011. Einstaklingar á Suðunesjum yngri en 30 ára eru 39% af þeim sem eru á atvinnuleysisskrá.
  • Hlutfall heimila í vanskilum er hæst á Suðurnesjum en rúmlega 16% íbúa á Suðurnesjum yfir 18 ára aldri eiga í alvarlegum vanskilum. Næst á eftir Suðurnesjum kemur Suðurland með 9,7% og höfuðborgarsvæðið með 9,5%.
  • Hlutfall íbúa sem fá ráðgjöf eða fara í greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara er hæst á Suðurnesjum samanborið við landið allt.
  • Eignir Íbúðalánasjóðs eru flestar á Suðurnesjum eða samtals 579. Næstflestar eignir sjóðsins eru á höfuðborgarsvæðinu eða 352 talsins.
  • Hlutfall íbúa á Suðurnesjum með háskólamenntun er 17,7% en landsmeðaltal er 33%.
  • Mikil aukning hefur orðið á málum í forvarnar- og meðferðarteymi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
  • Hlutfall öryrkja er hæst á Suðurnesjum eða 9,8% á meðan landsmeðaltal er 7,4%.
  • Mikil fjölgun hefur orðið á sprotafyrirtækjum á Ásbrú en í frumkvöðlasetrinu Eldey eru nú starfrækt 18 sprotafyrirtæki.
  • Stjórnvöld hafa ýtt ýmsum mótvægisaðgerðum úr vör á svæðinu svo sem
  • Formlegt samstarfi sveitarfélaga á Suðurnesjum á sviði velferðarmála með stofnun Suðurnesjavaktarinnar.
  • Menntaverkefni á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem miðar að því að efla menntun á Suðurnesjum.
  • Stofnað hefur verið atvinnuþróunarfélag sem vinnur að fjölbreyttum verkefnum á sviði atvinnu- og byggðaþróunar auk verkefna á sviði nýsköpunar.
  • Umboðsmaður skuldara opnaði útibú á svæðinu.
  • Sýslumaðurinn í Keflavík hlaut styrk til þess að gera rannsókn á orsökum nauðungarsala á Suðurnesjum.
  • Einnig má nefna:
  • Þróun nýrra atvinnu- og námstækifæra með úrræðum á borð við Atvinnutorg, Vinnandi vegur og Nám er vinnandi vegur. Fjölbrautaskóli Suðurnesja mun bjóða upp á sérstaka námsleið fyrir einstaklinga sem standa ekki vel að vígi að loknum grunnskóla og hafa ekki áhuga á hefðbundnu bóklegu námi.
  • Fræðsluskrifstofan í Reykjanesbæ vinnur að verkefninu Framtíðarsýn sem miðar að bættum námsárangri í Reykjanesbæ og nágrannasveitarfélögunum.
  • Fjölbreytt og öflug virkni- og starfsendurhæfingarúrræði fyrir fólk á öllum aldri og með ólíkan bakgrunn.
  • Skimunarverkefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Vinnumálastofnunar sem miðar að því að skima fyrir heilsufarslegum vandamálum meðal atvinnulausra einstaklinga. Þeim einstaklingum sem reynast vera í áhættuhópi er vísað í viðtal hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.