Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Áhugi fyrir Vaxtarsamningi Suðurnesja
Föstudagur 1. október 2010 kl. 14:25

Áhugi fyrir Vaxtarsamningi Suðurnesja


Talsverður áhugi er fyrir Vaxtarsamningi Suðurnesja að sögn Bjarkar Guðjónsdóttur, verkefnisstjóra hjá SSS, en samningurinn hefur verið kynntur á opnum fundum undanfarið í sveitarfélögunum á Suðurnesjum við ágætar undirtektir.

Vaxtarsamningurinn er milli Atvinnuþróunarráðs Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og Iðnaðarráðuneytisins. Markmiðið með honum er að efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins á Suðurnesjum og auka hagvöxt með virku samstarfi fyrirtækja, háskóla, sveitarfélaga og ríkisins.

„Klasahugmyndin sem þessi Vaxtasamningur felur í sér er nokkuð ný af nálinni. Þess vegna þarf að kynna þetta vel. Ég verð vör við mikinn áhuga þegar fólk áttar sig á því um hvað þetta snýst,“ sagði Björk í samtali við VF. Í framhaldinu fari fólk að ígrunda hvernig það geti fellt sínar hugmyndir að þeim hugmyndum sem Vaxtarsamningurinn gangi út á.

„Það tekur auðvitað einhvern tíma að mynda klasa þar sem kannski þrjú eða fleiri fyrirtæki koma saman og ákveða að vinna að einhverri þróun á vöru eða þjónustu. Öll þau fyrirtæki sem koma að klasanum þurfa að hafa hag af því sem kemur út úr samstarfinu. Það tekur einnig tíma að finna út hvaða fyrirtæki það eru sem geta myndað slíkt samstarf,“ sagði Björk. Aðspurð segist hún reikna með auglýst verði eftir styrkhæfum verkefnum undir lok þessa mánaðar og að úthlutanir úr sjóðnum hefjist í nóvember. Alls eru 27 milljónir króna til úthlutunar.

Næstkomandi mánudag verður kynningarfundur í Bíósal Duushúsa en á honum verður sérstök áhersla lögð á ferðaþjónustuna á Suðurnesjum, samvinnu innan svæðis og utan, um markaðssetningu og menningarlega afþreyingu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024