Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 15. ágúst 2001 kl. 10:10

Áhugi fyrir að gera Keflavíkurflugvöll að vistvænni herstöð

Auðlindanefnd fulltrúadeildar bandaríska þingsins hefur verið á ferð um Ísland undanfarna daga að kynna sér auðlindanýtingu og þá sérstaklega jarðvarma- og vetnismál. Móttaka og kynning var haldin fyrir hópinn í Eldborg í Svartsengi sl. þriðjudag. Að sögn Hjálmars Árnsonar, formanns iðnaðarnefndar Alþingis hefur þingnefndin verið að skoða möguleika á að gera herstöðina á Keflavíkurflugvelli að fyrstu vistvænu herstöðinni í heiminum. Hitaveita Suðurnesja yrði þá í lykilhlutverki sem framleiðandi vetnisorku.

Fékk góðan hljómgrunn
Að sögn Hjálmars Árnsonar, formanns iðnaðarnefndar Alþingis hefur þingnefndin verið að skoða möguleika á að gera herstöðina á Keflavíkurflugvelli að fyrstu vistvænu herstöðinni í heiminum.
„Þetta er hugmynd sem ég varpaði fram fyrir einu og hálfu ári og hefur fengið góðan hljómgrunn meðal Bandaríkjamanna. Sömu viðbrögð sýndu gestirnir núna og í viðræðum við þá úti í Bláa lóni lýstu þeir verulegum ájuga á að fylgja málinu eftir. Því til staðfestu varð einn embættismaður úr sendinefndinni eftir og mun eiga fund með okkur Jóni Birni í dag (miðvikudag) um þetta mál“, segir Hjálmar.

Vetni er framtíðarorkugjafi
Verið er að skipuleggja samstarf á milli Íslendinga og erlendra aðila varðandi tilraunir á vetnistækni. „Hugmyndin gagnvart Bandaríkjamönnum er sú að tengja þessar vetnistilraunir við samfélagið á Vellinum enda kjörið til þess sem sjálfstætt og einagrað samfélag með eigin innviði (bíla, hús o.fl). Þannig mun hið alþjóðlega samstarf styrkjast enn frekar. Hitaveita Suðurnesja mun í mínum huga, gegna lykilhlutverki komi til þessa sem framleiðandi vetnis. Það aftur opnar möguleika á frakari þróun, m.a. með útflutning vetnis í huga“, segir Hjálmar og bætir við að ljóst sé að komi bandaríski herinn til slíks samstarfs, verður um verulegar fjárhæðir að ræða og mikla uppbyggingu á hinni nýju tækni að ræða hér á Suðurnesjum.

Fróðleg ferð
Ameríska sendinefndin fór í sambærilega kynnisferð til Noregs og Danmerkur áður en hún kom til Íslands og að sögn Marnie Funk, upplýsingafulltrúi Auðlindanefndarinnar, voru orkumálin alls staðar í brennipunkti. „Ferðin hefur verið mjög lærdómsrík en hér á Íslandi höfum við ekki bara fræðst um hvernig þið framleiðið orku, heldur höfum við einnig átt í viðræðum um hvalveiðar, okkur hefur verið kynnt fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga sem við teljum að sé mjög gott og við höfum einnig fjallað um mikilvægi herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og framtíðarstarfsemi þar“, sagði Marnie í samtali við VF.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024