Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Áhugaverðar hugmyndir að þorskeldisstöð í landi Grindavíkur
Miðvikudagur 4. mars 2009 kl. 08:17

Áhugaverðar hugmyndir að þorskeldisstöð í landi Grindavíkur


Agnar Steinarsson, sérfræðingur hjá Hafró á Stað, hefur kynnt hugmyndir að þorskeldisstöð í landi Grindavíkur, en þetta er lokaverkefni í frumkvöðlanámi Agnars. Segja má að þetta sé framleiðsla á hraðvaxta stórseiðum fyrir þorskeldi.

,,Hugmyndin er sú að gera viðskiptaáætlun fyrir þorskeldisstöð sem gæti alið seiði við kjöraðstæður upp í 500 g meðalstærð og selt síðan áfram til eldis í sjókvíum, þar sem fiskurinn næði 3-4 kg stærð á tveimur sumrum. Gert er ráð fyrir því að stækka stöðina í áföngum og að fullbyggð geti hún afkastað allt að 10 milljónum seiða á ári, sem gæti verið hráefni í 30 þúsund tonn af eldisþorski.  Í skýrslunni verður gerð úttekt á arðsemi, ásamt mögulegu staðarvali fyrir slíka stöð innan lands Grindavíkur. Eldisform þetta kallast kjöreldi, til aðgreiningar frá hefðbundnu aleldi, " segir Agnar.

Agnar kynnti hugmyndir sínar um stórseiðaeldisstöð fyrir þorsk á fundi atvinnu- og ferðamálanefndar fyrir skömmu. Nefndin tók vel í hugmyndir Agnars.

,,Mikil vinna er framundan og margt sem þarf að skoða m.a. staðsetningu. Góðir möguleikar eru fyrir því að staðsetning starfseminnar geti risið í Grindavík en aðalatrið er að þetta verði að veruleika.  Um er að ræða atvinnuskapandi verkefni sem vel passar inní atvinnuumhverfi Grindavíkur," segir í fundargerðinni.

Af www.grindavik.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024